Brómódíólón kemur í veg fyrir upptöku K vítamíns í líkamanum, sem er nauðsynlegur þáttur í storknun blóðsins. Þegar það er notað sem meindýraeitur getur það valdið því að dýrum á borð við mýs og rottur blæðir út á aðeins um sólahring en það er illa séð sökum þess að það getur borist í önnur dýr sem leggja sér nagdýrin til munns.
Þar ber meðal annars að nefna arnar- og uglutegundir en vísindamenn og umhverfisverndarsinnar hafa einnig lýst áhyggjum yfir því að aukin notkun brómódíólóns í Ástralíu gæti haft afar skaðvænleg áhrif á nokkrar tegundir páfagauka.
Adam Marshall, landbúnaðarráðherra Nýju Suður Wales, hafði áður lýst því yfir að yfirvöld hefðu tryggt sér 10 þúsund lítra af brómódíólóni til að „napalm-sprengja mýs“ í sveitum ríkisins en segist nú munu hlíta ákvörðun eftirlitsstofnunarinnar.
Eftirlitsstofnunin hefur heimilað notkun sink-fosfats, sem hefur einnig skaðleg áhrif á umhverfið en er ekki jafn langvirkandi.
Hinn yfirstandandi músafaraldur hefur valdið gríðarlegri eyðileggingu á uppskeru í Nýju Suður Wales og skemmdum á heimilum, byggingum og vélbúnaði. Þá hafa fregnir borist af hrúgum af dauðum músum, bitnum börnum og óvelkomnum bólfélögum.
