Erlent

Hvað svo? Trump segir næsta fasa friðaráætlunar hafinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjölmargir þjóðarleiðtogar og erindrekar eru saman komnir í Egyptalandi til að ræða hvernig hægt sé að koma á friði til langs tíma.
Fjölmargir þjóðarleiðtogar og erindrekar eru saman komnir í Egyptalandi til að ræða hvernig hægt sé að koma á friði til langs tíma. AP/Evan Vucci

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir annan fasa friðaráætlunarinnar varðandi Gasaströndina nú hafinn. Nú þegar búið sé að koma á vopnahléi á Gasa og Hamas-liðar hafi sleppt gíslum þeirra. Bandarískir erindrekar hafa varað við því að annar fasinn sé flókinn og erfiður.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ísraelar og Hamas samþykkja vopnahlé og þau hafa hingað til ekki leitt til langvarandi friðar. Mikla vinnu þarf til að koma á friði til langs tíma

Fyrsti fasinn fól í sér að koma á friði og að Hamas og Ísraelar skiptust á föngum. Þá þurftu ísraelskir hermenn að hörfa á Gasaströndinni, þó þeir hafi ekki yfirgefið svæðið alfarið. Í raun stjórna þeir enn um helmingi Gasastrandarinnar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ísraelar og Hamas-liðar samþykkja vopnahlé. Þau hafa hingað til ekki leitt til langvarandi friðar. Stórir hlutar Gasastrandarinnar eru í rúst og er ljóst að mikla uppbyggingu þarf þar. Ísraelar og Bandaríkjamenn vilja þar að auki að Hamas-liðar leggi niður vopn og komi með engum hætti að stjórnun svæðisins í framtíðinni.

Annar fasi friðaráætlunarinnar á að snúast um það að koma á langvarandi friði og um endurbyggingu Gasastrandarinnar og framtíðarskipulag svæðisins. Ljóst er að mikil vinna er fyrir höndum og margt getur farið úrskeiðis.

Það er meðal þess sem ráðamenn og erindrekar margra ríkja eru mættir til Egyptalands til að ræða.

Netanjahú hætti við

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, er ekki í Egyptalandi. Tilkynnt var í morgun að hann myndi mæta á fundinn en skömmu síðar sagðist hann ekki ætla að fara og vísaði til helgidags gyðinga sem hefst í kvöld. Við það vöknuðu margar spurningar um af hverju ekki.

Fregnir frá Ísrael benda til þess að Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hafi hringt í Abdel Fattah El-Sisi, forseta Egyptalands, og sagt að hann myndi snúa flugvél sinni við ef Netanjahú kæmi á fundinn.

Donald Trump og Mahmoud Abbas, forseti heimastjórnar Palestínu, í Egyptalandi.AP/Evan Vucci

Elta uppi meinta njósnara

Hamas-liðar hafa sést víða um Gasaströndina í dag og þá sérstaklega í Gasaborg. Þar sem þeir hafa hert tökin aftur eftir að Ísraelar tóku stóra hluta borgarinnar. Myndir af Hamas-liðum á gangi um borgina hafa verið í dreifingu í dag og hafa borist fregnir af átökum milli þeirra og fylkinga sem vilja losna við Hamas.

Þá hefur komið fram á samfélagsmiðlasíðum sem tengjast Hamas að vígamenn hafi leitað uppi „uppljóstrara“ og aðra sem sakaðir eru um að hafa starfað með Ísraelum. Einhverjir þeirra munu vera grunaðir um að hafa aðstoðað Ísraela við að ráða leiðtoga Hamas af dögum, samkvæmt frétt CNN.

Ræða gæslulið og margt annað

Friðartillögurnar sem kenndar eru við Trump og vopnahléssamkomulagið byggði á segja til um að mynda eigi sérstakt gæslulið sem á að þjálfa og starfa með palestínskum löggæslumönnum, með ráðgjöf frá Jórdaníu og Egyptalandi. Þetta gæslulið eigi að halda friðinn á Gasaströndinni.

Þær segja einnig til um að Gasa eigi að gangast „af-hernaðarvæðingu“ og felur það í sér að Hamas-liðar eigi að leggja niður vopn. Það hafa leiðtogar samtakanna, sem hafa stjórnað Gasaströndinni frá 2007, ávallt þvertekið fyrir að gera.

Leiðtogar samtakanna hafa þar að auki á undanförnum dögum ekkert gefið til kynna að þeim hafi snúist hugur.

Þetta mun eflaust þurfa að ræða ítarlega í Egyptalandi.

Utanríkisráðherra Egyptalands ræddi stöðuna við AP fréttaveituna í dag, þar sem hann fór meðal annars yfir hvað þyrfti að ræða í öðrum fasanum, eins og áðurnefnd gæslulið. Hann lofaði einnig Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, vegna aðkomu hans að vopnahléinu.

Einnig verður líklega rætt um viðveru ísraelskra hermanna á Gasaströndinni. Samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum stjórna þeir nú um 53 prósentum landsvæðisins. Næst eiga þeir að hörfa enn lengra svo þeir stjórni um fjörutíu prósentum og svo fimmtán prósentum.

Að endingu ættu Ísraelar að stjórna smáu svæði um Gasa sem mynda á einhverskonar „öryggissvæði“. Hve lengi það á að vera er óljóst í tillögunum og er orðalagið á þann veg að Ísraelar ættu að fá að ráða því.

Þá eru tillögurnar mjög óljósar þegar kemur að palestínsku ríki og nefna eingöngu mögulega lausn að tveggja ríkja lausn en á mjög óljósan hátt. Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, hefur ítrekað sagt að stofnun slíks ríkis komi ekki til greina.


Tengdar fréttir

Allir lifandi gíslarnir lausir úr prísund sinni

Þeir tuttugu gíslar sem voru enn lifandi í haldi Hamas-samtakanna var sleppt og þeir afhentir Rauða krossinum í morgun. Þetta staðfestir Ísraelsher. Gert er ráð fyrir að líkum 28 gísla til viðbótar verði skilað síðar í dag.

Flóðgáttir þurfi að opnast í Gasa

Framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi segir birgðaflutninga á Gasaströndinni fara of hægt af stað. Flutningabílar eru farnir að berast inn á svæðið en flóðgáttir þurfi að opnast til að bregðast við neyðarástandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×