Svo virðist sem einhver orðrómur þess efnis sé á kreiki á samfélagsmiðlum að ungt fólk stundi að svíkjast undan bólusetningu eftir að hafa tryggt sér bólusetningarskírteini.
Orðið á götunni er að ungt fólk mæti í bólusetningu, skanni sig inn og láti sig svo hverfa áður en það er búið að sprauta það.
— Pétur Örn Gíslason (@peturgisla) June 23, 2021
Heimskan í fyrirrúmi atarna.
Þau eru samt auðvitað komin með bólusetningarvottorð 🤯
„Það sem við tökum kannski sérstaklega eftir er að fólk verði kvíðið og vilji hætta við. En við trúum ekki á brotavilja fólks til að gera svona,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslunni, í samtali við Vísi.
Hún segir að þegar svo beri undir, að fólk vilji hætta við bólusetningu, þá sé það sérstaklega skráð til baka í kerfinu, svo bólusetningarvottorð séu ekki send á óbólusetta einstaklinga.
„Við reynum að fylgjast með þessu. Lögreglan er að fylgjast með röðunum og við reynum að grípa alla ef einhver fer afsíðis eða stendur upp og fer. Það ætti að vera erfitt að komast í gegnum þetta hjá okkur, þó það gæti verið að einhverjum hafi tekist það. En það er okkar lína að fólk vilji vera heiðarlegt og hjálpa okkur, þannig að við gerum þetta saman.“
Unga fólkið almennt ekki til vandræða
Fólki sem hafi snúist hugur um bólusetninguna sé boðið að koma afsíðis og fá bólusetningu þar eða bjóða því aðra aðstöðu. Ef það gangi ekki sé fólk skráð úr kerfinu.
Ragnheiður telur því ekki að um sé að ræða útbreitt vandamál meðal ungs fólks, sem hún segir hið almennilegasta í tengslum við bólusetningarnar.
„Þau eru mjög flott og dugleg í þessu. Núna erum við með 2005 árganginn og hann er alveg að brillera í gegn hjá okkur með góðri mætingu,“ segir Ragnheiður.
Þegar fréttastofa ræddi við Ragnheiði um klukkan eitt í dag var búið að bólusetja með um sex þúsund skömmtum af bóluefni Pfizer. Um sex þúsund skammtar voru því eftir og góður gangur á bólusetningum samkvæmt Ragnheiði.