Innlent

Guðmundur Ingi undirritar samning um rekstur Rifs

Árni Sæberg skrifar
Frá vinstri, Pedro Rodrigues, forstöðumaður Rifs, Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Aðalsteinn Örn Snæþórsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands.
Frá vinstri, Pedro Rodrigues, forstöðumaður Rifs, Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Aðalsteinn Örn Snæþórsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands. Stjórnarráðið

Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Norðurþing og Náttúrustofa Norðausturlands hafa gert með sér samning um rekstur Rannsóknastöðvarinnar Rifs á Raufarhöfn.

Samningnum er ætlað að stuðla að auknum rannsóknum, vöktun og fræðslu á starfssvæði náttúrustofunnar og gildir til fimm ára. Heildarskuldbinding samningsins nemur 67 milljónum króna og er heildarframlag ráðuneytisins 52 millljónir króna.

Öll gögn sem aflað verður á grundvelli samningsins verða afhent Náttúrufræðistofnun Íslands og verða öllum opin.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði samninginn fyrir hönd ráðuneytisins er hann var á ferð um Norðurland.

Rannsóknastöðin hefur það hlutverk að efla og auka náttúrurannsóknir á Melrakkasléttu, meðal annars með hliðsjón af skuldbindingum Íslands í norðurslóðasamstarfi. Eins sér hún um að safna saman og miðla upplýsingum um náttúrufar á svæðinu og styðja nærsamfélagið með fræðslu og stuðningi við náttúrutengda ferðamennsku og almennri þátttöku í samfélaginu á Melrakkasléttu.

„Rannsóknir og vöktun, eins og þær sem Rannsóknastöðin Rif stuðlar að á Melrakkasléttu, eru afar mikilvægar, sérstaklega á tímum loftslagsbreytinga“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. 

Hann bætir við: „Melrakkaslétta er skilgreind sem heimskautasvæði og er mjög aðgengileg sem slík, bæði fyrir vísindamenn og almenning. Það er ánægjulegt að samningurinn gildi til fimm ár, en það gefur Rannsóknastöðinni Rifi aukinn stöðugleika og forsendur til þess að horfa fram á veginn í sínu vísindastarfi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×