Lík Johns Snorra og Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr, samferðamanna hans, hafa aldrei fundist eftir að þeir hurfu á K2 í febrúar. Þeir ætluðu að freista þess að vera fyrstu mennirnir til að komast á tind þessa næst hæsta fjalls jarðar að vetri til. Pakistönsk yfirvöld töldu þá formlega af 18. febrúar.
Nú segir Elia Saikaly, kanadískur kvikmyndagerðarmaður sem var með John Snorra og félögum í för í vetur, að hann og Sajid Sadpara, sonur Ali, séu komnir til Pakistan til að leita að líkunum. Sajid komst lífs af úr leiðangrinum sem kostaði faðir hans lífið.
„Sannleikurinn er sá að við gátum ekki gert ekkert. Þetta eru vinir okkar. Þetta voru liðsfélagar okkar,“ skrifar Saikaly í færslu á Facebook-síðu sinni. Hann vann að heimildarmenn um leiðangur Johns Snorra og félaga en vegna ruglings með súrefniskúta gat hann ekki fylgt þeim síðasta áfanganna. Hann segir að það hafi líklega verið honum lífsbjörg.
Erfiðlega hefur gengið fyrir Saikaly að safna fjármagni til þess að ljúka gerð myndarinnar en hann segir að undanfarnar tvær vikur hafi þeir Sajid unnið kraftaverk og skipulagt ferð á K2. Sjálfur hafi hann umturnað lífi sínu og fjármálum til þess að láta leiðangurinn verða að veruleika en honum sé sama um það.
„Þetta er leiðangur okkar til að finna svör. Þetta snýst um heiður, tryggð og vináttu. Þetta er fyrir Sajid. Þetta er fyrir Ali. Þetta er fyrir John. Og þetta er fyrir Pakistan,“ skrifar Saikaly.
