Eins og hefur verið greint frá benda nýlegar myndir sem birtust af Kim til þess að hann hafi grennst töluvert að undanförnu. Sérfræðingar í Suður-Kóreu hafa áætlað að Kim hafi tapað um tíu til tuttugu kílóum.
Orðinn „skinhoraður“
Ríkismiðill Norður-Kóreu hefur nú tekið málið til umfjöllunar í fyrsta sinn síðan erlendir miðlar fóru að fjalla um það fyrr í mánuðinum. Í frétt miðilsins er rætt við ónefndan borgara ríkisins sem fullyrðir að allir í landinu séu í molum yfir þyngdartapi leiðtogans.
„Að sjá hæstvirtan leiðtoga okkar skinhoraðan brýtur í okkur hjartað,“ sagði maðurinn í viðtalinu. Hann segir að allir borgarar ríkisins hafi fellt tár yfir ástandinu. Hvort orðið skinhoraður sé best til að lýsa líkamsbyggingu Kim eftir þyngdartapið er kannski umdeilanlegt.
Miðillinn greinir ekki frá því hvað orsakar þyngdartap leiðtogans en einhverjir erlendir sérfræðingar hafa velt því fyrir sér hvort leiðtoginn sé heilsuveill.
Hong Min, greinandi við Þjóðareiningarstofnunina í Suður-Kóreu, sagði um miðjan mánuð að þyngdartapið bendi líklega frekar til þess að Kim hafi farið í heilsuátak en að hann þjáist af sjúkdómi.