Áströlum hefur almennt gengið vel í baráttunni gegn kórónuveirufaraldrinum; 31 þúsund manns hafa smitast og 910 látist. Árangurinn má meðal annars rekja til þess að landamærunum var svo gott sem lokað í mars í fyrra.
Engu að síður hafa aðeins um 5 prósent þjóðarinnar verið bólusett og í gær sagði forsætisráðherrann Scott Morrisson að allir undir fertugu ættu kost á því að fá bóluefnið frá AstraZeneca, eftir að hafa ráðfært sig við heimilislækni.
Þetta gengur þvert á ráðleggingar áströlsku ráðgjafanefndarinnar um bólusetningar, sem hefur, líkt og yfirvöld víðasthvar, mælt með því að einstaklingar yngri en 60 ára fái ekki AstraZeneca. Í Ástralíu er mælst til þess að yngra fólkið fái heldur bóluefnið frá Pfizer.
Ástæðan er aukin áhætta á hættulegum blóðsegavandamálum, sem hafa verið tengd við notkun efnisins frá AstraZeneca. Omar Khorshid, formaður áströlsku læknasamtakanna, sagði yfirlýsingu Morrison hafa komið á óvart og að hann væri ekki sammála forsætisráðherranum.
Útgöngubann er í gildi í Sydney, Brisbane, Darwin og Perth. Aðgerðirnar má rekja nokkurra hópsýkinga. Ein kom upp í kjölfar 30 manna samkvæmis í Sydney; 24 viðstaddra greindust með Covid-19 en sex ekki. Sexmenningarnir voru einu gestirnir sem voru bólusettir.