Innlent

Fluttur á bráða­­deild með á­verka eftir hand­tökuna

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Umbúðir eftir blóðprufu sjást á hendi mannsins á vinstri myndinni og band um úlnlið hans frá bráðadeild á þeirri hægri. Myndirnar voru teknar í gær.
Umbúðir eftir blóðprufu sjást á hendi mannsins á vinstri myndinni og band um úlnlið hans frá bráðadeild á þeirri hægri. Myndirnar voru teknar í gær. svava kristín

Annar Palestínu­mannanna sem lög­regla hand­tók í hús­næði Út­lendinga­stofnunar á þriðju­dags­morgun var fluttur á bráða­deild Land­spítala með á­verka eftir handtökuna, meðal annars á höfði. Hann fullyrðir sjálfur að hann hafi margoft verið sprautaður niður án samþykkis. 

Þetta stað­festa myndir sem Svava Kristín, blaðamaður Mannlífs, tók af manninum á heimili sínu í gær þegar hún tók viðtal við hann sem má lesa hér. Hún gaf leyfi fyrir myndbirtingunum.

Á mynd sést spítala­band á hendi mannsins sem merkt er bráða­deild og má einnig sjá um­búðir eftir sprautustungu á hendi hans.

Ó­ljóst er hve­nær ná­kvæm­lega hann var lagður inn á bráða­deild en lög­regla vill ekkert stað­festa í málinu. Landspítali vill ekki staðfesta að maðurinn hafi komið á bráðadeild og segist ekki mega gefa neitt upp um skjólstæðinga sína vegna persónuverndarsjónarmiða.

Eftir því sem Vísir kemst næst var maðurinn sendur úr landi með flugi til Grikklands í morgun en ekki í gærmogun eins og hinn Palestínumaðurinn sem var handtekinn á þriðjudag.

Hér má sjá áverka á enni og kinn mannsins eftir handtökuna.svava kristín

Vilja engu svara um málið

Helgi Val­berg Jens­son, aðal­lög­fræðingur lög­reglunnar, vill ekki tjá sig um málið við Vísi. Spurður hvort hann geti ekki einu sinni stað­fest hvort annar mannanna hafi verið sendur úr landi í gær­morgun en hinn í dag segist hann ekki vilja gera það.

Spurður nánar út í málið vísar hann al­farið á frétta­til­kynningu sem lög­regla sendi frá sér í gær. Þar stendur meðal annars:

„Lög­regla beitir ekki raf­byssum undir neinum kring­um­stæðum enda hefur hún ekki heimild til að beita slíkum tækjum. Þá sprautar lög­regla aldrei ein­stak­linga, slíkt er á­vallt í höndum heil­brigðis­starfs­manna, sem taka slíka á­kvörðun sjálf­stætt í ljósi að­stæðna hverju sinni.“

Þar virðist lög­reglan gefa það í skyn að heil­brigðis­starfs­fólk hafi sprautað mennina, eða annan þeirra, niður í að­gerðunum.

Hvers vegna telur lög­regla sig ekki geta tjáð sig um málið?

„Það bara liggur í hlutarins eðli.. við erum með málið í vinnslu,“ segir Helgi.

Helgi, sem er aðallögfræðingur lögreglunnar, sér um að svara fyrir málið fyrir stoðdeild lögreglu en þeir sem eru yfir deildinni eru í sumarfríi.facebook/helgi valberg

Spurður hvort málið sé enn í vinnslu, þó búið sé að senda mennina úr landi segir hann:

„Ja, þetta er bara marg­þætt mál með marga anga.“

Upptökur úr búkmyndavélum og öryggismyndavélum

Spurður hvort einn þeirra anga, sé rann­sókn á því hvort lög­regla hafi beitt ó­þarf­lega mikilli hörku við hand­tökuna segir hann:

„Það eina sem liggur fyrir er að það hefur verið sagt að málið verði borið undir nefnd um eftir­lit með lög­reglu . Við erum bara að taka saman gögn fyrir það og skoða þau. En það er ekkert sem bendir til þess núna.“

Hann stað­festir að ein­hverjir lög­reglu­mannanna hafi verið með búk­mynda­vélar við að­gerðirnar og segir að upp­tökur af hand­tökunum séu einnig til úr mynda­vélum hús­næðisins.

Ekki í standi til að fljúga?

Sema Erla Serdar, for­maður hjálpar­sam­takanna Solaris fyrir hælis­leit­endur og flótta­fólk á Ís­landi, segist í sam­tali við Vísi ekki kunna skýringar á því hvers vegna maðurinn var ekki sendur úr landi með flugi í gær­morgun eins og hinn.

„Ég veit ekki hvers vegna, nei. Kannski var hann bara ekki í standi til að fljúga,“ segir hún.

Sema segir að sam­kvæmt frá­sögn mannsins, sem túlkur á hennar vegum hefur verið í samskiptum við, hafi hann verið sprautaður niður oftar en einu sinni af ein­hverjum í gulu vesti.

Hann hafi verið mjög vankaður og hálfruglaður eftir allt málið, þegar samtökin komust í samband við hann í gær.

Sema Erla Serdar er for­maður hjálpar­sam­takanna Solaris fyrir hælis­leit­endur og flótta­fólk á Ís­landi.

Spurð hvort maðurinn hafi sagt að lög­regla hafi sprautað hann niður segir Sema: „Hann sagðist ekki þekkja muninn á ein­kennis­búningunum öllum en að það hafi verið manneskja í gulu vesti. Og hans upp­lifun var sú að hann hafi fengið ein­hvers konar raf­stuð þegar hann var hand­tekinn eða eitt­hvað slíkt. Það voru þarna átök sem áttu sér stað og hann var aug­ljós­lega beittur miklu harð­ræði af lög­reglunni.“

Sema segir að fram­ganga lög­reglu í málinu verði til­kynnt til nefndar um eftir­lit með lög­reglu í dag og að á­bending verði send til um­boðs­mann Al­þingis um bæði lög­regluna og Út­lendinga­stofnun.


Tengdar fréttir

Segja lög­reglu hafa beitt raf­byssu og eytt mynd­böndum sjónar­votta

Tveir palestínskir flótta­menn voru hand­teknir í mót­töku Út­lendinga­stofnunar í gær eftir að þeir höfðu verið boðaðir þangað til að sækja bólu­setningar­vott­orð sín. Þeir voru fluttir af staðnum með valdi og sendir úr landi í morgun. Sjónar­vottur sakar lög­reglu um að hafa tekið af sér símann og eytt mynd­bandi sem var tekið upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×