Degi áður en Moise var myrtur skipaði hann Dr. Ariel Henry í embætti forsætisráðherra. Þá hafði Claude Josehp, utanríkisráðherra, verið starfandi forsætisráðherra Haítí í um tíu vikur.
Strax í kjölfar morðsins tilkynnti Joseph að hann leiddi nú ríkisstjórn Haítí en Henry hefur nú lýst því yfir að hann sé réttmætur forsætisráðherra. Henry er sjöundi forsætisráðherrann sem Moise skipaði frá því hann tók við völdum árið 2017.
„Ég vill ekki kasta olíu á eldinn,“ sagði Henry í viðtali við dagblaðið Le Nouvelliste í gærkvöldi. „Herra Claude Joseph stóð sig vel í dag og ég kann að meta það.“
Hann sagðist hafa verið að vinna í því að mynda sína eigin ríkisstjórn og sú vinna hefði verið komin langt. Hann sagði að stjórnarmyndun hans myndi halda áfram og kallaði eftir viðræðum við Joseph um hvernig þeir geti haldið áfram og sagðist hann vilja að Joseph yrði áfram utanríkisráðherra.
Henry lýsti því einnig yfir í viðtalinu að hann væri ekki ánægður með þá ákvörðun Josehps að lýsa yfir tveggja vikna neyðarástandi á Haítí í kjölfar morðsins.
AP fréttaveitan segir að samkvæmt stjórnarskrá Haítí ætti forseti Hæstaréttar ríkisins að taka forsetaembættinu um tíma. Sá dó hins vegar á dögunum vegna Covid-19 og bæði embættin sitja tóm.
Martine Moise, forsetafrúin, særðist í árásinni og var flutt á sjúkrahús. Hún hefur nú verið flutt á sjúkrahús í Flórída. Hluti árásarinnar náðist á myndband og á upptökum má heyra einn árásarmannanna kalla að þeir tilheyri Fíkniefnalögreglu Bandaríkjanna.
Í Bandaríkjunum er þvertekið fyrir að mennirnir tengist yfirvöldum á nokkurn hátt.
Myndefni úr árásinni má sjá hér í frétt CBS News.
Ráðamenn á Haítí segja fjóra árásarmenn hafa verið skotna til bana af lögregluþjónum og tveir hafi verið handteknir. Léon Charles, lögreglustjóri, hefur heitið því að handsama alla árásarmennina og hefur talað um þá sem „málaliða“.
„Örlög þeirra eru ráðin,“ sagði Charles í gærkvöldi. „Þeir munu falla í skotbardaga eða verða handteknir.“
Litlar sem engar upplýsingar hafa þó verið veittar um árásarmennina sjálfa. Þá um hverjir þeir voru og eru og hvað vakti fyrir þeim.