Þriðji skammturinn yrði, samkvæmt áætlun Pfizer, gefinn tólf mánuðum eftir að annar skammtur hefur verið gefinn fólki. Talið er að ónæmissvarið við veirunni aukist og að líkaminn verði betur í stakk búinn til að verjast fleiri afbrigðum hennar en ella.
Pfizer hyggst sækja um leyfi fyrir þriðja skammtinum hjá matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna, FDA, og hjá Lyfjastofnun Evrópu síðar í sumar. Fréttastofa AP greinir frá þessu.
Vísindamenn, þjóðarleiðtogar og allir þar á milli hafa verið áhyggjufullir um að bóluefnin, sem hafa verið þróuð, virki ekki eins vel gegn nýjum afbrigðum veirunnar eins og þeim eldri. Til að mynda veitir einn skammtur af bóluefninu ekki nægilega vörn gegn delta afbrigðinu en bóluefnin veita flest ágæta vörn við því þegar búið er að fullbólusetja.
Nauðsynlegt er í flestum tilvikum að gefa bóluefnið í tveimur skömmtum til að fá sem best ónæmissvar, svo líkaminn geti barist gegn sem flestum afbrigðum kórónuveirunnar. Ónæmissvar í líkamanum minnkar gjarnan þegar tíminn líður og standa því nú yfir rannsóknir hjá Pfizer um hvort nauðsynlegt sé að bæta við þriðja skammtinum.