Lögregluyfirvöld í Haítí rannsaka morðið í samstarfi við lögregluna í Kólumbíu og Interpol. Þau segja frumrannsókn málsins benda til þess að Joseph Felix Badio, fyrrverandi starfsmaður dómsmálaráðuneytisins, hafi fyrirskipað morðið þremur dögum áður en Moise var myrtur. Fréttastofa Reuters greinir frá.
Þetta sagði Jorge Vargas, yfirlögregluþjónn í Kólumbíu í hljóðskilaboðum sem hann sendi á fjölmiðla. Fjölmiðlum vestanhafs hefur ekki tekist að ná sambandi við Badio og ekki er vitað hvar hann er niðurkominn.
Að sögn Vargas kom í ljós við rannsókn málsins að Badio hafði skipað kólumbísku hermönnunum fyrrverandi, þeim Duberney Capador og German Rivera, að ráða Moise af dögum.
„Nokkum dögum áður, þremur teljum við, sagði Joseph Felix Badio, sem er fyrrverandi starfsmaður dómsmálaráðuneytisins og vann gegn spillingu í ráðuneytinu, þeim Capador og Rivera að þeir þyrftu að ráða forsetann á Haítí af dögum,“ sagði Vargas.
Vargas útskýrði þetta ekkert frekar og greindi ekki frá því hvaðan þessar upplýsingar fengust. Capador var banað af haítísku lögreglunni og Rivera handtekinn stuttu eftir að Moise var myrtur.
Síðasta sunnudag var hinn 63 ára gamli Christian Emmanuel Sanon, sem víðast hvar var kallaður læknir frá Flórída, handtekinn af haítískum yfirvöldum en hann er sakaður um að hafa skipulagt morðið.