Innlent

Rás 2 ekki með Ingó á sérstökum bannlista

Jakob Bjarnar og Árni Sæberg skrifa
Baldvin Þór Bergsson dagskrárstjóri Rásar 2 segir að engar skipanir að ofan hafi komið fram þess efnis að ekki beri að spila tónlist Ingós á rásinni.
Baldvin Þór Bergsson dagskrárstjóri Rásar 2 segir að engar skipanir að ofan hafi komið fram þess efnis að ekki beri að spila tónlist Ingós á rásinni.

Útvarpskonan Heiða, sem sér um Næturvakt Rásar 2 þar sem tekið er á móti óskalögum hlustenda, kom sér hjá því að spila lög með Ingólfi Þórarinssyni um helgina þó óskir um það lægju fyrir.

DV segir frá þessu og hafa spunnist talsverðar umræður um málið á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfi þar sem því hefur verið velt upp hvort Ingó og hans tónlist hafi verið sett í sérstakt bann á ríkismiðlinum? Svo mun þó ekki vera.

Mál Ingós komust í hámæli eftir að hópurinn Öfgar tók að safna saman sögum á samfélagsmiðlinum Tiktok um meinta kynferðislega misnotkun hans á ungum stúlkum. Ingólfur hefur sent kröfubréf til sex þeirra sem hafa látið ummæli falla um málið sem hann og lögmaður hans, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, telja varða við lög og farið fram á afsökunarbeiðni og bætur.

Baldvin Þór Bergsson dagskrárstjóri Rásar 2 segir í samtali við Vísi að ekki liggi fyrir nein stefna sem lýtur að því að lög með Ingó séu ekki leikin á rásinni. „Það hefur engin skipun borist að ofan um það,“ segir Baldvin Þór. Á dagskrárstjóranum er að skilja að þó Ingó sé ekki formlega á svörtum lista þá finnst honum líklegt að dagskrárgerðarmenn og plötusnúðar á Rás 2 séu með Ingó á ís; þó ekki liggi fyrir neinar opinberar línur þar um. En þeim er í sjálfsvald sett hverju þeir vilja ýta undir nálina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×