Uppreisnarhermenn hafa háð baráttu við stjórnarhersveitir Eþíópíu síðan í nóvember en þeir vilja sjálfstæði frá landinu. Átök milli hersveitanna hafa verið harðar undanfarna mánuði en í lok júní flúðu stjórnarhersveitir héraðið. Síðan þá hafa hersveitir hinna níu héraða Eþíópíu yfir stuðningi við stjórnarherinn og sagst ætla að senda hersveitir sínar gegn hersveitum frá Tigray.
Uppreisnarhermenn segjast þó ekki ætla að leggja niður vopn fyrr en eþíópíska ríkisstjórnin samþykkir kröfur þeirra. Afar-hérað gegnir mikilvægu hernaðarlegu hlutverki. Í gegn um héraðið liggur þjóðvegur og lestarteinar sem tengja Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu sem er í miðju landinu, við hafnarborgina Djibouti.
Að sögn Ahmed Koloyta, upplýsingafulltrúa Afar, gengu uppreisnarhermenn berserksgang um héraðið, brenndu niður hús, fóru ránshendi um heimili og myrtu óbreytta borgara. Hann sýndi þó engin sönnunargögn þess efnis og fréttastofa Reuters gat ekki sannreynt staðhæfingu hans.
Debretsion Gebremichael, leiðtogi Frelsisfylkingarinnar (TPLF), sagði í samtali við Reuters í morgun að hersveitir Tigray væru staddar í Afar og að áætlunin sé að beina spjótum að hersveitum Amhara-héraðs, nágrannahéraðs Afar. Hersveitir frá Amhara hafa barist fyrir stjórnarherinn undanfarna mánuði.