78 tilfelli greindust innanlands í gær og tilkynnti Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundi almannavarna að hann væri með tillögur að auknum takmörkunum á borðinu.
Getum verið stolt af árangrinum
Ragnar minnir á þá staðreynd að flest séum við bólusett og að bráðum verði fleiri bólusettir. Bólusetning hindri alvarlega sjúkdóma af völdum Covid-19 og dragi verulega úr dánartíðni. Þetta styður hann með breskri tölfræði.
„Ég held að það sé rétt að anda rólega og líta björtum augum fram á veginn. Við erum yfir níutíu prósent bólusett sem dregur virkilega úr líkum á alvarlegum veikindum og dánartíðni. Við getum verið ofboðslega stolt af þessum árangri að hafa bólusett þorra þjóðar þegar þessi fjórða bylgja fer af stað,“ segir Ragnar Freyr í samtali við fréttastofu.
Ástandið krítískt
„Það er búið að vera svo mikið „panik“ í fjölmiðlum í dag þannig að mér fannst rétt að líta björtum augum fram á vegin þó að ástandið sé krítískt. Við höfum náð ótrúlegum árangri í bólusetningum þannig að við erum eins vel í stakk búin til að takast á við þessa fjórðu bylgju og hægt er að vera.“
Þá telur hann rökrétt að stjórnvöld blási til stórsóknar í heilbrigðismálum svo hægt sé að lifa með veirunni.
„Ég held að frekar en að skerða frelsi okkar verulega þá ættu stjórnvöld að blása til stórsóknar í heilbrigðiskerfinu. Fleiri úrræði, hlusta á starfsmenn á gólfinu sem flestir hafa ótal hugmyndir um það hvernig betur megi fara með þennan sameiginlega sjóð okkar. Covid-19 göngudeildin er skínandi dæmi þess. Hún er hugmynd okkar sem vorum á gólfinu og hefur skilað árangri. Við ættum að blása til stórsóknar til að styðja við heilbrigðiskerfið svo að við getum lifað með sjúkdómnum.“
Inntur eftir því hvort ekki sé ráðlegt að herða tökin innanlands í ljósi stöðunnar segir hann að þar sem aðgerðir hafi ekki verið kynntar sé réttast að tjá sig ekki frekar um það.
„Þórólfur, Alma og Víðir hafa ekki svikið okkur hingað til.“