Oddvitakjör Miðflokksfélags Reykjavíkurkjördæmis suður hófst í gær og lauk kosningu klukkan 17 í dag. Fjóla Hrund hlaut 58% atkvæða og Þorsteinn 42% atkvæða en þau gáfu ein kost á sér sem oddvitar listans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Miðflokknum.
Stjórn Miðflokksins í Reykjavík tók á dögunum ákvörðun um að boða til oddvitakjörs eftir að tillaga uppstillinganefndar að framboðslista flokksins í kjördæminu var felld á félagsfundi þann 15. júlí. Tillagan gekk út á það að efsta sæti myndi Fjóla Hrund skipa í stað Þorsteins.
Viðbrögðin komu flatt upp á forystu flokksins
Samkvæmt heimildum Vísis brást Þorsteinn illa við þessum hugmyndum og gekk í að smala samherjum sínum á félagsfundinn. Var tillagan felld með 30 atkvæðum gegn fjórtán.
Eftir því sem Vísir kemst næst stóð stjórn kjördæmafélagsins heilshugar að baki ákvörðun uppstillinganefndar en til þess er meðal annars litið að Þorsteinn sé kominn á eftirlaunaaldur og eigi rétt á biðlaunum frá Alþingi og/eða starf hjá umhverfisráðuneyti til sjötugs þar sem hann starfaði áður en hann fór á þing, kæri Þorsteinn sig um það.
Viðbrögð Þorsteins komu flatt upp á forystu flokksins og hafa sett áform um að jafna kynjaskiptingu í uppnám; ráðgert var að þrjár konur skipi oddvitasæti flokksins fyrir komandi kosningar.
Kjörsókn í oddvitakjörinu var 90%, að því er fram kemur í tilkynningu frá flokknum. Niðurstöðurnar hafa verið sendar til uppstillingarnefndar kjördæmisins sem mun leggja fram framboðslista til samþykktar á félagsfundi Miðflokksfélags Reykjavíkurkjördæmis suður næstkomandi mánudag. Kosið verður um listann bæði rafrænt og á fundinum sjálfum.
Fréttin hefur verið uppfærð.