Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Landspítala. Þar kemur meðal annars fram að verið er að athuga hvort kalla eigi fólk inn til starfa úr sumarfríum.
„Viðbragðsstjórn vill biðla til starfsfólks í orlofi, sem hefur þurft að breyta sínum áætlunum vegna faraldursins og gæti hugsað sér að geyma orlof þar til betra árar, að gefa sig fram við sinn yfirmann,“ segir í tilkynningunni.
Tveggja metra reglan er nú í gildi í kaffistofum og matsölum á spítalanum, þar sem fólk tekur niður grímur til að matast.
Tilkynnt var fyrr í dag að fimm hafi lagst inn á Landspítala með Covid-19 í gær. Því hefur áætlun um fjölgun Covid rýma verið ræst og stendur yfir vinna við að breyta smitsjúkdómadeild A7 í farsóttareiningu. Á meðan á því stendur er lungnadeild A6 í viðbragðsstöðu, sem og gjörgæsludeildir.
Átta eru nú inniliggjandi á Landspítala með Covid-19, sjö á legudeildum og einn á gjörgæslu. 853 eru í eftirliti á Covid-göngudeildinni þar af 89 börn. Tveir eru á rauðu en níu einstaklingar flokkast gulir. Sautján starfsmenn eru í einangrun, 35 í sóttkví A og í vinnusóttkví eru 165 starfsmenn.