Fótbolti

„Engar áhyggjur, ég verð hér í ár“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sá argentínski kveðst ekki vera á förum þrátt fyrir brottför landa hans Messis.
Sá argentínski kveðst ekki vera á förum þrátt fyrir brottför landa hans Messis. Pedro Salado/Quality Sport Images/Getty Images

Sergio Agüero, leikmaður Barcelona, segist ætla að vera hjá félaginu áfram þrátt fyrir vandræðin sem plaga klúbbinn. Sögusagnir hafa verið á kreiki um að hann vilji fara burt frá Katalóníu.

Agüero samdi við Barcelona í sumar og kom frítt til félagsins 1. júlí eftir að samningur hans við Manchester City rann út. Agüero er sagður hafa verið spenntur fyrir því að spila með góðum vini sínum og landa, Lionel Messi, á lokaárum ferils síns en Messi fór svo óvænt frá Barcelona í vikunni eftir að samningaviðræður hans við félagið runnu út í sandinn.

Spænskir fjölmiðlar sögðu Agüero vera vægast satt ósáttan við þann brest á vonum og hann vilja fara frá félaginu. Barcelona er þá í miklum fjárhagsvandræðum og hafa miðlar á Spáni sagt þá ekki geta skráð nýja leikmenn í leikmannahóp sinn fyrir komandi tímabil vegna fjárhagsreglna spænsku úrvalsdeildarinnar, jafnvel þó Messi sé farinn.

Stuðningsmaður Barcelona birti hins vegar myndskeið af Agüero í gær þar sem sá argentínski kveðst ætla að vera hjá Börsungum í vetur.

Agüero er einn af fjórum leikmönnum sem Barcelona hefur samið við í sumar, ásamt Memphis Depay, Eric García og Emerson.


Tengdar fréttir

Messi kveður Barcelona með tárum

Lionel Messi hefur leikið sinn síðasta leik fyrir katalónska fótboltaliðið Barcelona. Hann er á blaðamannafundi í beinni frá Nývangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×