Erlent

Engin alvarleg blóðsegavandamál síðustu fjórar vikur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bretar hafa notast við bóluefnin frá AstraZeneca og Pfizer.
Bretar hafa notast við bóluefnin frá AstraZeneca og Pfizer. epa/Ciro Fusco

Engar tilkynningar um alvarleg blóðsegavandamál hafa verið tilkynnt á Bretlandseyjum í kjölfar bólusetninga síðustu fjórar vikur. Vísindamenn segja þetta mega rekja til þess að tilmælum var breytt þannig að yngri en 40 ára fá ekki bóluefnið frá AstraZeneca.

Bóluefnið frá Janssen, sem einnig er talið geta valdið blóðsegavandamálum, er ekki notað á Bretlandi.

Þetta kom fram á blaðamannafundi með vísindmönnum sem gerðu rannsókn á tilvikum alvarlegra blóðsegavandamála í kjölfar bólusetninga. Niðurstöður hennar birtust í The New England Journal of Medicine.

Um 80 prósent þeirra sem upplifðu alvarleg blóðsegavandamál í kjölfar bólusetningar með bóluefninu frá AstraZeneca voru yngri en 60 ára, þrátt fyrir að flestir þeirra sem höfðu fengið bóluefnið á þeim tíma sem rannsóknin náði til hefðu verið eldri.

Dregið hefði úr tilfellum um leið og tilmælum um bólusetningarnar var breytt og engin ný tilvik hefðu verið skráð síðustu fjórar vikur.

Um 23 prósent þeirra sem upplifðu fylgikvillan létust en 73 prósent þeirra sem fengu blóðtappa í heila (CVST). 

Rannsóknin náði til 294 mögulegra tilvika og var það niðurstaða vísindamannanna að 220 þeirra væru örugglega eða líklega af völdum bóluefnisins. 

Í um þriðjungi tilvika fundust fleiri en einn blóðtappi og í nánast öllum tilvikum kom aukaverkunin fram fimm til 30 dögum eftir fyrri skammtinn af bóluefninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×