Fótbolti

Birkir Bjarna á­fram í bláu er hann heldur til Tyrk­lands

Hjörtur Leó Guðjónsson og Runólfur Trausti Þórhallsson skrifa
Birkir Bjarnason er búinn að finna sér lið í tyrknesku deildinni.
Birkir Bjarnason er búinn að finna sér lið í tyrknesku deildinni. Vísir/Vilhelm

Birkir Bjarnason, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, hefur samið til tveggja ára við Adana Demirspor í Tyrklandi. Liðið leikur í efstu deild eftir að hafa unnið B-deildina á síðustu leiktíð. Fyrsti leikur tímabilsins er núna á sunnudaginn gegn stórliði Fenerbahçe.

Á ferli sínum hefur Birkir spilað á Englandi með Aston Villa, með Basel í Sviss, Standard Liége í Belgíu, á Ítalíu með Sampdoria, Pescara og nú síðast Brescia ásamt því að stoppa stutt við hjá þáverandi Íslendinga nýlendu Al Arabi í Katar.

Þessi öflugi miðjumaður lék nú síðast með Brescia í B-deildinni á Ítalíu og var talið að hann yrði þar áfram. Mikill áhugi var á kappanum frá ítölskum liðum en hann hefur ákveðið að söðla um og halda til Tyrklands í enn eitt ævintýrið.

Birkir hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu undanfarin ár og átt stóran þátt í velgengni Íslands. Honum vantar aðeins tvo landsleiki í hundraðið en hann hefur spilað 98 leiki fyrir A-landslið Íslands og skorað í þeim 14 mörk, þar af tvö á Evrópumótinu í Frakklandi sumarið 2016.

Ljóst er að Birkir kann vel við sig í bláu en Brescia líkt og íslenska landsliðið leikur í bláum búningu. Sömu sögu er að segja af Adana Demirspor.

Demirspor eru nýliðar í tyrknesku úrvalsdeildinni og á Birkir eflaust að hjálpa þeim að þétta miðsvæðið á tímabilinu sem gæti reynst nokkuð strembið. Liðið hefur verið duglegt að sækja leikmenn í sumar og má þar helst nefna hinn skrautlega Mario Balotelli. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×