Í vikunni greindum við frá því að 180 vélbyssur eru í einkaeigu á Íslandi og flestar þeirra virkar. Vélbyssa er annað orð yfir sjálfvirkan riffil og flokkast sem sjálfvirkt skotvopn en það eru þau vopn sem skjóta má úr röð skota með því að taka aðeins einu sinni í gikkinn. Innflutningur á sjálfvirkum skotvopnum jókst gríðarlega árið 2020 þegar 252 slík vopn voru flutt inn til landsins en þau voru einungis nítján árið á undan.
Fjöldinn vekur óhug
Þingmaður segir þessa miklu fjölgun vekja óhug.
„Þetta er ekki bara lítil fjölgun heldur gríðarlega mikil fjölgun og þá vitum við það að það eru sjálfvirkar vélbyssur í umferð allavegana, þó svo að þær eigi að vera kyrfilega geymdar og í eigu safnara að mesu leyti til,“ sagði Rósa Björk Bynjólfsdóttir, þingmaður.
Fjölgun innfluttra skotvopna virðist vera vegna áhuga safnara og rýmri skilgreiningu á safnvopni.
Í vor fjallaði Kompás ítarlega um skipulagða glæpastarfsemi en allt bendir til þess að hún hafi færst í vöxt á Íslandi. Lögreglan hefur miklar áhyggjur af þróuninni og segir aukna hörku einkenna undirheima Íslands.
„Þá náttúrulega setur maður þetta kannski í samhengi við það að það sé hægt að stela byssum og koma þeim í markað og umferð í ólöglegum tilgangi og oft skelfilegum tilgangi.“
Hlusta þurfi á lögregluna berist viðvörunarorð
Sjö byssum var stolið á síðasta ári en þær byssur sem notaðar hafa verið í ólöglegum tilgangi hér á landi voru flestar stolnar.
„Við þurfum líka að hlusta á lögregluna. Hvernig þau meta stöðuna. Hvort þau séu að kalla eftir skýrari reglugerð eða skýrari og styrkari löggjöf í kringum þetta. Um leið og það koma einhvers konar viðvörunarorð frá lögreglunni þá held ég að við þurfum að bregðast mjög hratt og mjög skjótt við. Ef lögreglan telur að þetta sé of rúm reglugerð þá verðum við að bregðast mjög skjótt við.“