Víðir var til viðtals í Morgunútvarpinu á Rás 2 þar sem hann sagði að staðan eftir skimanir gærdagsins væri svipuð og fyrir helgi. Í fyrradag greindust 55 manns með veiruna, 64 á laugardag og 83 á föstudag. Dagana tvo þar á undan greindust yfir hundrað með veiruna, hvorn daginn.
„Mér sýnist þetta vera eins og var fyrir helgina, eitthvað í kringum hundrað. Það er ekki alveg ljóst enn þá,“ sagði Víðir þegar hann var inntur eftir fjölda þeirra sem greindist í gær.
Á laugardag var greint frá því að 83 hefðu greinst með veiruna daginn á undan. Þá sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að ánægjulegt væri að sjá lækkandi tölur, þó ekki væri unnt að túlka þær um of. Til þess að vera marktækar þyrftu lækkandi tölur að vara nokkra daga í röð, auk þess sem færri sýni en venjulega hefðu verið tekin á föstudag, laugardag og sunnudag.
Smitrakning þyngri
Víðir sagði í morgun að þegar yfir hundrað manns greindust dag eftir dag yrði smitrakning erfiðari. Þannig geti það misfarist að allir sem sannarlega hafi verið útsettir fyrir smiti fái skilaboð um að vera í sóttkví, en verið sé að vinna að því að sjálfvirknivæða kerfi smitrakningateymisins betur til þess að koma í veg fyrir slíkt.
„Þetta er náttúrulega ný staða fyrir okkur að vera með svona mörg tilfelli. Eins og í þriðju bylgjunni, þá held ég að við höfum farið einn dag upp í hundrað, eitthvað svoleiðis. Flestir stóru dagarnir þá voru svona fimmtíu, sextíu,“ sagði Víðir.