Naumur tími er eftir til þess koma fólki frá landinu enda rennur frestur fyrir algera brottför alþjóðlegra hersveita út í lok mánaðar. Talibanar, sem tóku völdin í landinu á dögunum, útiloka að sá frestur verði framlengdur.
Ein þeirra íslensku fjölskyldna sem var í Afganistan þegar Talibanar tóku völdin kom til landsins í dag og er í sóttkví, samkvæmt utanríkisráðuneytinu. Tvær eru eftir úti og unnið er að því að koma þeim heim.
Um hundrað og þrjátíu Afganar eru búsettir hér á landi en stór hluti þeirra er með íslenskan ríkisborgararétt. Hópurinn hefur töluverðar áhyggjur af fólkinu sínu úti og fjölmenn samkoma á Austurvelli setti fram skýra kröfu í dag um að bjarga eigi fjölskyldum sem eru enn úti í Afganistan.

„Allir þessir afgönsku Íslendingar hérna eiga fjölskyldur í Afganistan. Líf þeirra eru í hættu og við viljum fá fólkið hingað til lands. Aðstæður í Afganistan eru hættulegar og við viljum bjarga fjölskyldum okkar,“ segir Navid Nouri og bætir við:
„Ég biðla til stjórnvalda um að þau hjálpi afgönskum Íslendingum eins og þau myndu gera fyrir innfædda. Ef þetta væri staðan hjá fjölskyldum innfæddra Íslendinga myndu stjórnvöld koma þeim til aðstoðar.“