Þó að Valur eigi enn þrjá leiki eftir á tímabilinu þá dugar liðinu einfaldlega að vinna í kvöld til að landa Íslandsmeistaratitlinum. Liðið er sjö stigum á undan Breiðabliki eftir 1-0 sigurinn í Kópavogi 13. ágúst og Blikakonur geta mest náð níu stigum úr síðustu leikjum sínum.
Valur hefur aðeins tapað einum deildarleik á tímabilinu, hinu skrautlega 7-3 tapi gegn Breiðabliki á Hlíðarenda í maí, gert tvö jafntefli (við Þrótt og Þór/KA) en unnið tólf leiki. Liðið hefur unnið átta leiki í röð.
Tindastóll er sýnd veiði en ekki gefin en eini skellur liðsins í sumar kom þó gegn Val sem vann 5-0 sigur á Sauðárkróki í júní.
Valskonur eiga leiki við Keflavík og Selfoss til góða, vinni þær ekki í kvöld.
Valur er næstsigursælasta félagið í sögu efstu deildar kvenna í fótbolta, með ellefu Íslandsmeistaratitla. Breiðablik hefur unnið flesta eða sautján.
Valur vann titilinn síðast árið 2019, undir stjórn núverandi þjálfara Péturs Péturssonar, en hafði þá ekki orðið meistari síðan árið 2010.
Leikur Vals og Tindastóls hefst klukkan 18 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 4.