Þórhildur Gyða Arnarsdóttir segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi eftir að hafa greint frá ofbeldisbroti leikmanns karlalandsliðsins og meintum þöggunartilburðum KSÍ. KSÍ hefur verið harðlega gagnrýnt og krafið um afsögn vega málsins. Þórhildur tekur undir kröfur um afsögn og segir málið ekki einsdæmi innan sambandsins.
„Ég veit að það eru önnur dæmi því miður. Það eru fleiri þolendur og að mínu mati erum við allt of margar þar sem það ætti ekki að vera neinn þolandi þessara manna. En þær eru fleiri já,“ sagði Þórhildur Gyða Arnarsdóttir.
Hún segist vita af að minnsta kosti sex leikmönnum sem sakaðir hafi verið um ofbeldi.
„Sex eða sjö, þá er ég bæði að tala um fyrrverandi og núverandi landsliðsmenn.“
Forsvarsmenn KSÍ þvertaka fyrir að sambandið hafi boðið Þórhildi þagnarskyldusamning gegn greiðslu. Fréttastofa náði tali af Almari Möller, lögmanni leikmannsins, sem neitar að hafa komið fram sem lögmaður KSÍ í málinu. Hann vildi ekki veita fréttastofu viðtal í dag.
Stjórn sambandsins hefur fundað stíft vegna málsins í dag en formaðurinn, Guðni Bergsson, neitaði fréttastofu um viðtal og sagði að yfirlýsingar væri að vænta.
Þórhildur krefst þess að leikmenn sem kærðir hafa verið fyrir ofbeldisbrot verði fjarlægðir úr landsliðinu.
„Og að KSÍ velji ekki vísvitandi ofbeldismenn í liðið sitt. Þessi stjórn virðist vera óhæf um það. Þannig að til þess að fá það í gegn væri best að fá nýja stjórn í heildina.“