James Cleverly, ráðherra málefna Mið-Austurlanda, sagði í samtali við BBC Breakfast að bresk stjórnvöld væru viljug til að eiga samtal við talíbana en að samskiptin myndu velta á hegðun þeirra, ekki orðum.
„Ef þeir ætlast til að komið verði fram við þá eins og stjórnvald þá munum við haga samskiptum okkar byggt á framgöngu þeirra,“ sagði hann.
Bretar hafa farið þess á leit að alþjóðlegt bandalag verði myndað til að tryggja að talíbanar standi við gefin loforð. Utanríkisráðherrann Dominic Raab mun byrja á því að eiga viðræður við embættismenn í Tyrklandi og Katar.
Fleiri en 15 þúsund einstaklingar hafa verið fluttir frá Afganistan til Bretlands frá 14. ágúst en talið að 800 til 1.100 Afganir séu enn í landinu sem eiga rétt á því að ferðast til Bretlands. Meðal þeirra eru einstaklingar sem unnu fyrir Breta.
Þá er talið að um 100 til 150 Bretar séu enn í landinu, sem ekki náðu flugi þaðan.
Þegar Cleverly var spurður að því hvað umræddir einstaklingar ættu til bragðs að taka, sagði hann að það yrði auglýst þegar hægt yrði að ráðleggja fólki hvað það varðaði.