Skoðun

Efling iðn- og tækni­náms – eða hvað?

Kristján Þórður Snæbjarnarson skrifar

Sjaldan er talað jafn mikið um eflingu iðn- og tæknináms líkt og í aðdraganda kosninga eða á hátíðardögum. Rafiðnaðarsamband Íslands hefur á undanförnum árum unnið markvisst að því að styðja við bakið á þeim sem velja sér þá leið að fara í rafiðnaðarnám enda hefur verið skortur á rafiðnaðarfólki á íslenskum vinnumarkaði um langt skeið. Með útgáfu á rafrænu kennsluefni sem notað er við kennslu í iðn- og verkmenntaskólum höfum við dregið verulega úr þeim kostnaði sem lendir á nemendum í okkar greinum.

Allar götur síðan 2016 hafa samtök í rafiðnaði, Rafiðnaðarsamband Íslands og Samtök rafverktaka, staðið fyrir því að gefa öllum nemendum í rafiðngreinum spjaldtölvur til þess að tryggja jafnt aðgengi að rafrænu námsefni í skólanum. Nú hafa verið gefnar um 3.000 spjaldtölvur og enn bætist í hópinn.

Það er verulega jákvætt að sjá að aðsókn í námið hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 2016 og sjáum við um helmings aukningu á fjölda rafiðnnema frá 2017 til síðasta vetrar. En þrátt fyrir þessa aukningu þá er fyrirséð að skortur er á iðn- og tæknimenntuðum einstaklingum á vinnumarkaði. Betur má ef duga skal!

Á sama tíma og okkur hefur tekist að auka aðsókn í iðn- og tækninám þá verðum við vitni að því að gríðarlegum fjölda nemenda er vísað frá, fá ekki pláss í skólakerfinu vegna mikillar aðsóknar. Um 700 manns komust ekki að vegna plássleysis eða skorts á fjármagni í menntakerfinu.

Erum við að tryggja öllum jafnt aðgengi að námi?

Nei, nú er staðan sú að þeir einstaklingar sem fara beint í bóknám eftir grunnskóla og stefna á iðn- og tækninám að loknu stúdentsprófi komast ekki að sökum takmarkana á fjölda námsplássa í skólum.

Nú er lag að tryggja nægt fjármagn til iðnnámsgreina þannig að iðn- og verknámsskólar hafi burði til þess að bjóða öllum sama aðgengi að iðn- og tækninámi. Það er skortur á iðn- og tæknimenntuðu fólki á íslenskum vinnumarkaði og þá ber okkur sem samfélagi að bregðast við og auka framboðið í skólakerfinu.

Höfundur er formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×