Í fréttum Stöðvar 2 sást að Skaftá var þegar í gærkvöldi byrjuð að flæða yfir varnargarð við brýrnar að Skaftárdal og búin að taka veginn þar í sundur. Húsfreyjan á Búlandi var með börnum sínum að kíkja eftir á með tvö lömb á hólma sem myndast hafði í ánni.

„Þetta hefur svo sem ekki mikil áhrif á dagleg störf hjá okkur. En eins og núna, af því að þetta kemur að sumarlagi, þá er til dæmis ein rolla frá okkur strand á milli brúa. En hún er þar núna ekki með neitt ferskvatn sem maður hefur svona mestar áhyggjur af,“ segir Auður Guðbjörnsdóttir, bóndi á Búlandi.

Gísli Halldór Magnússon, bóndi á Ytri-Ásum, segir flest benda til að þetta verði lítið hlaup.
„En ef það hleypur kannski í kjölfarið úr stóra katlinum þá geta orðið mikil hlaup,“ segir Gísli.
„Þessi stærri hlaup, sem koma úr eystri katlinum, þau hafa náttúrlega meiri áhrif á okkur. Það hefur flætt inn á tún og svona þegar þau koma niður,“ segir Auður.

„Það er náttúrlega alveg afleitt að fá þessi stóru hlaup. Þau fara yfir allt. Þau setja allt í leðju og sand. Svo fýkur þetta endalaust alveg,“ segir Gísli.
Hann hefur jafnframt áhyggjur af árbakkanum við nýju Eldvatnsbrúna.

„Vatnið er alltaf að mylja úr bakkanum þarna austan við nýju brúna. Það er alveg stanslaust að mylja úr því.
Og þetta er svo þungt, þetta jökulvatn, leðjuvatn. Þetta brýtur allt saman. Þetta brýtur hraunið alveg eins og ekkert sé,“ segir bóndinn á Ytri-Ásum.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má sjá útsendingu Stöðvar 2 af vettvangi í gærkvöldi:
Hér má sjá hvernig hlaup úr stóra katlinum geta orðið, eins og það sem varð árið 2015: