
Þetta er talsvert meiri stuðningur við fjölgun flóttafólks miðað við fyrri kannanir þar sem 33% voru á þessari skoðun í október á síðasta ári. Eins fækkar þeim sem eru andvígir um sex prósentustig, úr 32% niður í 26%.

Nokkur munur er á svörum þátttakenda eftir aldri, kyni, búsetu og stuðningi við stjórnmálaflokka. Þannig eru yngri svarendur og konur líklegri til að vilja taka á móti fleira flóttafólki en eldri hópurinn og karlar.
42% íbúa á höfuðborgarsvæðinu finnst tekið á móti of fáum, samanborið við 34% á landsbyggðinni. Þá finnst 23% höfuðborgarbúa tekið á móti of mörgum, en 32% á landsbyggðinni.
Þegar litið er til stuðnings við stjórnmálaflokka er stuðningsfólk Samfylkingar (69%) og Pírata (65%) líklegast til að telja tekið á móti of fáu flóttafólki. Hins vegar er stuðningsfólk Flokks fólksins (59%) og Miðflokksins (87%) líklegast til að finnast of margt flóttafólk fá hæli á Íslandi.
Könnunin var framkvæmd dagana 18. til 24. ágúst 2021 og var heildarfjöldi svarenda 932 einstaklingar, 18 ára og eldri.