Skoðun

Upp­boð á veiði­heimildum

Ólafur Örn Jónsson skrifar

Ef fara á út í uppboð á veiðiheimildum hvort sem það er í kvótaformi eða í dagaformi má alls ekki missa sig og ana út í margra ára nýtingasamninga eins og útgerðamenn vilja koma á. Því miður virðast Viðreisn og Samfylkingin vera að daðra við þessar hugmyndir sem nota á til að brjótast út úr lögum um stjórn fiskveiða þar sem veiðiheimildum er úthlutað til eins árs í senn sem hefur verið nógur fyrirsjáanleiki síðast liðin 45 ár eða síðan við hófum stjórn fiskveiða. Þetta má aldrei verða. Gerum okkur grein fyrir að 4 kynslóðir hafa nú búið við EINOKUN kvótans. Nú verður því að linna.

Ef leiðin er uppboð á hvort sem er dagakerfi eða kvóta þá verður að varast enn meiri samþjöppun og yfirgang þeirra sem sópað hafa að sér auð í skjóli EINOKUNAR í kvótakerfinu og á FÖLSUN á gengi krónunnar sem við höfum horft uppá síðan 2014. Til að gera það skiptum við árinu upp í 3 fjögurra mánaða tímabil. Og ef ég byrja á að lýsa uppboði á kvóta þá þyrftum við 2 x 3 fjögurra mánaða tímabil sem myndu skarast um 2 mánuði. Annað uppboðið hefðist 1. jan 1. mai og 1. sep en seinna 1. mar 1. júl og 1. nóv (gert til að engin fisktegund yrði ófánleg í of langan tíma).

Uppboðið færi þannig fram að útgerðamenn í öllum flokkum bolfiskveiða byðust til að borga vissa prósentu af verði þess fisks sem landað yrði á fiskmarkaði (allur fiskur landað á markað) til ríkisins og bæjarfélagsins. Enginn útgerðamaður hefði rétt til að tryggja sér meira en 2 fullfermi af hverri sort í senn til að koma í veg fyrir hamstur. Á þessum 4 mánuðum yrði fiskur falur þeim sem hæst buðu og öðluðust réttinn í þessu fjögurra mánaða uppboði. 1.Mars hefst svo seinna uppboðið og mega þeir sem eru í fyrra uppboðinu kaupa þar þær tegundir sem uppseldar væru í fyrra uppboðinu og þeir sem ekki náðu inn í fyrra uppboðinu fá nú aftur möguleika í seinna uppboðinu. Gjaldið hverju sinni er greitt við löndun.

Uppboð á dögum í dagastjórnun við stjórnun fiskveiða er mun einfaldara. Þar er á fjögurra mánaða fresti bara úthlutað dögum sem má nota á þorskveiðar annars vegar og dögum á aðrar tegundir með 15% hámarki á þorsk hins vegar. Útgerðamenn gera sama og í uppboði á kvóta bjóðast til að borga vissa prósentu af verði sem fæst fyrir fiskinn á markaði til ríkisins og bæjarfélagsins. Fyrirsjáanleikinn er sá sami útgerðarmaðurinn hefur réttinn þessa fjóra mánuði þá kemur næsta uppboð til að öðlast réttinn næstu fjóra mánuði og koll af kolli og borgar alltaf við lönduná markaði. Sjá má skýringu á þessu fyrirkomulagi uppboðanna á myndinni hér að neðan.

Með báðum þessum aðferðum þar sem ég mæli eindregið með dagafyrirkomulaginu (Stefna Sósialista) er tryggt hæsta fáanlegt verð fyrir veiðiheimildirnar, skilvirk nýliðun þar sem nýliðar/allir sitja við sama borð að aðgenginu að veiðum og sjálfbærni sem getur haldið áfram vandræðalaust. Þetta fyrirkomulag á dagakerfinu tryggir okkur allan fisk í löndun (ekkert brottkast) þar sem annaðhvort undirmálsfiskur eða þorskur yfir leyfilegu 15% þorsks á veiðum utan þorsks skilar sér í land og rennur aflaverðmætið til ríkisins eftir að hlutur sjómanna hefur verið greiddur til baka. Í þessu fyrirkomulagi er enginn ómöguleiki bara tækifæri þjóðar í algjörum ógöngum í stjórn sinna fiskveiða.

Höfundur er heldriborgari, fyrrverandi sjómaður, aflaskipstjóri og 4. maður á lista Sósíalista í Reykjavík suður.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×