Fótbolti

Press ýtir á pásu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Christen Press með bronsmedalíu um hálsinn eftir Ólympíuleikana í sumar.
Christen Press með bronsmedalíu um hálsinn eftir Ólympíuleikana í sumar. getty/Naomi Baker

Bandaríska landsliðskonan Christen Press hefur ákveðið að taka sér hlé frá fótbolta í nokkra mánuði til að huga að andlegri heilsu sinni.

Press lék með Manchester United á síðasta tímabili en gekk í raðir Angel City í sumar. 

Press var fyrsti leikmaðurinn sem samdi við Angel City sem er nýtt félag sem byrjar að spila í bandarísku kvennadeildinni á næsta ári. Fjölmargar stjörnur eiga hlut í félaginu en þar á meðal eru Natalie Portman, Eva Longoria, Serena Williams og Jessica Chastain.

Hin 32 ára Press tilkynnti um ákvörðun sína á Instagram. Þar sagðist hún hafa verið atvinnumaður í fótbolta í tíu ár og vegna álagsins sem því fylgir hafi ekki gefist tími til að hlúa að andlegri heilsu sinni. En það ætlar hún að gera á næstu mánuðum.

Press byrjaði að spila með bandaríska landsliðinu 2013. Hún hefur leikið 155 landsleiki og skorað 64 mörk. Hún hefur tvisvar orðið heimsmeistari með bandaríska landsliðinu og lék með því á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar. Þar fengu Bandaríkin brons.

Áður en Press fór til United lék hún með Utah Royals þar sem hún var meðal annars samherji Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur. Hjá United lék Press svo með Maríu Þórisdóttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×