Opið verður alla virka daga frá klukkan 8 á morgnanna til 20 á kvöldin. Það verður jafnframt hægt að mæta í hraðpróf hjá heilsugæslunni um helgar á milli 9 og 15.
„Við erum með langan opnunartíma virka daga, frá átta til átta og svo um helgar ætlum við að byrja á níu til þrjú og sjá hvort það dugi ekki. En á virkum dögum ákváðum við að hafa svona langan tíma því fólk er kannski ekki að hlaupa úr vinnu til að fara í þetta, fólk getur þá komið í hraðpróf eftir vinnu,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við fréttastofu.
Opnað var fyrir hraðpróf vegna viðburða í morgun og hægt er að panta tíma í hraðpróf á heimasíðunni hraðprof.covid.is eða á heilsuveru. Þegar skráningu er lokið fær fólk strikamerki í símann sem það framvísar við komu og fær svo svar 30-60 mínútum eftir sýnatökuna með tölvupósti.
Ragnheiður hvetur viburðahaldara til að láta vita af stærri viðburðum svo heilsugæslan sé tilbúin fyrir mannfjöldann.
„Það væri líka flott ef viðburðarhaldarar gætu látið okkur vita ef það eru stóri viðburðir í sigtinu, þá væri gott að því yrði laumað að okkur, þá getum við undirbúið okkur. Af því að við erum svo sem ekkert að elta það uppi en þetta er meira svona ef viðburðahaldarar kannski láti okkur vita svo við getum frekar undirbúið okkur svo við séum ekki alltaf með fullt af fólki í viðbragðsstöðu og svo er ekkert um að vera,“ segir Ragnheiður.
