Þetta kom fram í vitnaleiðslum í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Lögreglumenn vitnuðu hver á fætur öðrum í kjölfar þess að Þóranna Helga Gunnarsdóttir, ekkja Armandos, bar vitni fyrir dómi en hún sagðist sjálf ekkert hafa kannast við að skotvopn væri geymt á heimilinu.
Fjórir eru ákærðir fyrir manndráp í Rauðagerði laugardagskvöldið 13. febrúar. Angjelin Sterkaj er sakaður um að hafa skotið Armando Beqirai til bana. Shpetim Qerimi, Murat Selivrada og Claudia Sofia Coelho Carvalho eru sömuleiðis ákærð hvert fyrir sinn þáttinn sem leiddi til þess að Armando var skotinn til bana. Þau fjögur báru vitni í dómssal í gær. Angjelin ber fyrir sig sjálfsvörn en hin þrjú segjast ekkert hafa vitað um manndrápið.
Fundu hvergi haglabyssu
Lögreglumenn sem komu á vettvang í Rauðagerði 13. febrúar reyndu að tryggja vettvang um leið og þeir komu á staðinn en mikil ringulreið var á vettvangi. Þóranna lýsti því fyrir dómi í dag að menn hafi ekki áttað sig á því að Armando hafi verið skotinn fyrr en sjúkraflutningamenn klipptu á peysuna sem hann var klæddur í og sáu ummerki skotsárs.
Lögreglumenn lýstu því fyrir héraðsdómi í morgun að þeir hafi vísað Þórönnu inn í bílskúr hússins um leið og það varð ljóst og reynt að tryggja vettvang.
„Ég fór inn í bílskúrinn til að gera yfirlitsskoðun um nóttina. Við urðum ekki vör við skotvopn í bílskúr. Ég sá engin skotvopn og man ekki að það hafi komið upp. Ég leitaði svo sem ekki til að geta útilokað að skotvopn hafi verið þarna en fann ekki neitt,“ sagði einn lögreglumannanna sem bar vitni fyrir dómi í morgun.
Lögreglumenn lýstu því að það hafi verið mjög dimmt um nóttina og því hafi vettvangur verið afmarkaður og tryggður en eiginleg vettvangsrannsókn hafi farið fram morguninn eftir.
„Ég kom á vettvang ásamt kollega mínum, þá var búið að flytja brotaþola af vettvangi. Við fundum skothylki á vettvangi og blóð við bílskúrshurðina. Við tryggjum sönnunargögn og ljósmyndum og skoðum bílskúrinn. Svo var hann innsiglaður og svæðið vaktað þar til birti. Nánari rannsókn fór fram morguninn eftir því það var svo dimmt um nóttina,“ sagði lögregluþjónn hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Hann sagði að bílskúrinn hafi verið ljósmyndaður í bak og fyrir en ekki leitað ítarlega í honum. Hann hafi hvergi séð vopn.
„Nei, og ég kíkti í hillur og skoðaði og það var ekkert óeðlilegt að sjá þar. Ég get ekki útilokað að þar hafi verið byssa en hún hefði verið vel falin.“
Reiknað er með að aðalmeðferð standi næstu fjóra daga og ljúki með málflutningi þann 23. september.