Leiðtogarnir sem eiga að hafa átt í snörpum orðaskiptum sín á milli eru Mullah Abdul Ghani Baradar, aðstoðarforsætisráðherra og einn af stofnendum Talibana, og Khalil ur-Rahman Haqqani, ráðherra flóttamanna og einn af leiðtogum hins herskáa Haqqani-hóps.
BBC greinir frá og hefur eftir heimildarmönnum innan raða Talibana. Talibanar náðu völdum í Afganistan í síðasta mánuði og ný bráðabigðaríkisstjórn þeirra var mynduð á dögunum. Samanstendur hún af háttsettum leiðtogum Talibana.
Heimildarmaður BBC segir að Baradar og Hawwani hafi hnakkrifist á meðan stuðningsmenn þeirra hafi einnig blandað sér í málin. Er Baradar sagður vera óánægður með hvernig ríkisstjórnin er skipuð. Þá er hann einnig sagður vilja leggja áherslu á að Talibanar hafi náð yfirráðum í Afganistan með diplómatískum leiðum.
Er Haqqani sagður vera á öndverðum meiði, hann vilji meina að Talibanar hafi fyrst og fremst náð völdum í gegnum herstyrk þeirra. Leiðtogi hins herskáa Haqqani-hóps, Sirajuddin Haqqani, er innanríkisráðherra í ríkisstjórninni.
Í frétt BBC segir einnig að lítið hafi sést til Baradar síðustu daga eftir að rifrildið á að hafa átt sé stað. Baradar var á meðal þeirra sem skrifaði undir Doha-samkomulagið fyrir hönd Talibana á síðasta ári, en í því voru gefin fyrirheit um að Bandaríkin myndi draga herlið sitt frá Afganistan.