Langstærstur hluti árganganna tveggja mætir því ekki í skólann á mánudag en nokkrir nemendur sem hafa ekki verið í skólanum og sloppið við útsetningu munu sitja í heldur fámennum skólastofum.
„Smitin sem komu upp í gær hjá nemendum eru þess eðlis að við sáum ekki alveg tengingu á milli þeirra og smitrakningarteymið ráðlagði okkur að senda alla í sóttkví til að komast fyrir einhver smit sem væru mögulega að grassera,“ segir Elínrós Benediktsdóttir, skólastjóri Ölduselsskóla, í samtali við Vísi.
Áður voru nemendur í svokallaðri smitgát en hún felur meðal annars í sér að fólk fari í hraðpróf á fyrsta og fjórða degi smitgátar.
„Það kemur jákvæð niðurstaða hjá þeim og það gefur vísbendingu um að þetta hafi farið eitthvað víðar,“ segir Elínrós. Börnin hafi því verið send í sóttkví til að reyna að ná utan um útbreiðsluna.