Martial hefur ekki skorað fyrir United síðan í febrúar og náði sér ekki á strik þegar liðið tapaði fyrir West Ham United, 0-1, í 3. umferð enska deildabikarsins í gær.
„Við þurfum að sjá meira frá Martial. Við höfum sagt það margoft áður en hann er ekki að hjálpa sjálfum sér. Ég vil sjá hann svitna og skora. Hann hefur ekki gert nógu mikið síðan hann kom til United. Hann á góðar rispur sem lofa góðu en svo fylgir hann því ekki eftir og gerir ekki neitt,“ sagði Dublin.
„Líkamstjáningin hans er hræðileg. Hann vill ekki hlaupa og leggja nógu hart að sér til að vera framherji United.“
Martial fékk tækifæri í byrjunarliði United gegn West Ham í gær en nýtti það ekki nógu vel. United átti 27 skot að marki í leiknum en mistókst að skora.
Á síðasta tímabili skoraði Martial einungis sjö mörk eftir að hafa átt mjög gott tímabil þar á undan (2019-20). Þá gerði hann 23 mörk í 48 leikjum í öllum keppnum.