Sport

Dæmd fyrir að stela greiðslu­korti liðs­félaga

Sindri Sverrisson skrifar
Það verður að koma í ljós hvort að Julia Simon fái að keppa á Vetrarólympíuleikunum eftir þrjá mánuði.
Það verður að koma í ljós hvort að Julia Simon fái að keppa á Vetrarólympíuleikunum eftir þrjá mánuði. Getty/Christian Manzoni

Franska skíðaskotfimistjarnan Julia Simon hlaut í dag dóm fyrir að hafa meðal annars stolið og notað greiðslukort liðsfélaga síns í franska landsliðinu.

Simon þarf þó ekki að sitja inni en hún hlaut þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm og þarf að greiða 15.000 evrur í sekt, eða jafnvirði rúmlega 2,1 milljóna króna.

Hún játaði á sig allar sakir fyrir dómi, eftir að hafa áður reynt að halda fram sakleysi sínu.

Simon var samkvæmt frönskum miðlum dæmd vegna fimm mála. Þar á meðal þegar hún stal greiðslukorti af Justine Braisaz-Bouchet í landsliðsferð til Sandnes í Noregi, og verslaði á netinu fyrir á bilinu 1.000-2.000 evrur eða um 140-180 þúsund krónur.

Simon, sem er 29 ára gömul, hefur rakað inn verðlaunum á stórmótum og til að mynda unnið tíu heimsmeistaratitla auk silfurverðlauna á Vetrarólympíuleikunum í Peking 2022.

L‘Equipe segir að nú muni franska skíðasambandið skoða dóminn og ákveða í kjölfarið hvaða afleiðingar málið muni hafa fyrir Simon sem hefur áfram getað keppt síðustu tvö ár á meðan að niðurstaða lá ekki fyrir.

Aðeins þrír mánuðir eru í Vetrarólympíuleikana á Ítalíu.

Hafði fé af hjúkku

Simon mun einnig hafa haft fé af frönskum hjúkrunarfræðingi en alls eru nefnd þrjú tilvik um kortasvik, eitt um þjófnað og eitt um tilraun til kortasvika, á árunum 2021-22.

„Ég get ekki útskýrt þetta. Ég get ekki séð sjálfa mig fyrir mér gera þetta,“ sagði Simon fyrir dómi.

„Það er engin fjárhagsleg hvatning á bakvið það sem ég gerði. Núna tek ég einn dag fyrir í einu, því það að standa hérna mun hafa afleiðingar varðandi feril minn. Þetta var fáránlegt og heimskulegt,“ sagði Simon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×