Jafnaðarmannaflokkurinn (SPD) mælist nú með 25% og hefur fylgið dregist saman um eitt prósentustig frá því í síðustu könnun, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Kosningarnar fara fram á sunnudag.
Á sama tíma jókst stuðningur við bandalag kristilegra íhaldsflokka um eitt prósent. Kanslaraefni þess er Armin Laschet, arftaki Merkel sem ætlar að draga sig í hlé eftir sextán ár við stjórnvölinn.
Kristilegir íhaldsmenn hafa lengi ráðið lögum og lofum í þýskum stjórnmálum og eru þekktir fyrir að styrkja sig eftir því sem nær dregur kjördegi. Því segir New York Times að Laschet eygi enn möguleika á sigri.
Olaf Scholz, leiðtogi jafnaðarmanna, mælist enn með langmestan stuðning sem næsti kanslari Þýskalands. Hann er varakanslari og fjármálaráðherra í samsteypustjórn Merkel.
Stuðningur við græningja hefur aðeins dalað en þeir mælast nú með sextán prósent. Hægriflokkurinn Frjálsir demókratar (FDP) eru fastir í ellefu prósentum.
AP-fréttastofan segir að aukinn stuðningur við fjölda smáflokka sem soga fylgi frá þeim stærri gæti flækt stjórnarmyndun í ár. Þá er útlit fyrir að þingmönnum á sambandsþinginu fjölgi verulega vegna kosningalaga. Þingsætum gæti fjölgað úr 709 í átta hundruð eða jafnvel fleiri.