Lokatölur í Suðurkjördæmi skiluðu sér upp úr klukkan sjö í morgun. Framsóknarflokkurinn bætir við sig þriðja kjördæmakjörna þingmanninum í Suðurkjördæmi og Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínum þremur mönnum og er áfram stærsti flokkurinn.
Litlu munaði á D og B
Litlu munaði þó á flokkunum - Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 24,6 prósent atkvæða og Framsókn 23,9 prósent. Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, verður því fyrsti þingmaður kjördæmisins.

Átta atkvæðum munaði að Hólmfríður Árnadóttir, oddviti Vinstri grænna, kæmist inn sem kjördæmakjörinn þingmaður í stað Birgis Þórarinssonar, Miðflokki.

Flokkur fólksins þriðji stærsti
Flokkur fólksins er þriðji stærsti flokkurinn í kjördæminu, náði 12,9 prósent atkvæða og einn mann kjörinn, Ásthildi Lóu Þórsdóttur, kennara og formann Hagsmunasamtaka heimilanna.
Oddný Harðardóttir, oddviti Samfylkingarinnar, nær inn sem kjördæmakjörinn þingmaður, en Oddný hefur setið á þingi frá 2009.
Guðbrandur Einarsson, oddviti Viðreisnar í kjördæminu, nær sæti á þingi sem uppbótarþingmaður.
Eftir að lokatölur höfðu verið kynntar í öllum kjördæmum um klukkan níu í morgun var Hólmfríður Árnadóttir, Vinstri grænum, jöfnunarþingmaður kjördæmisins. Eftir að niðurstaða endurtalningar í Norðvesturkjördæmi var kynnt síðdegis í dag varð hins vegar ljóst að Guðbrandur Einarsson, Viðreisn, fengi jöfnunarþingsætið.
Að neðan má sjá lokatölur úr kjördæminu.
Fréttin hefur verið uppfærð.