Tjónið hafði ekki áhrif á starfsemi heilbrigðisstofnunarinnar og varð engum meint af þegar plöturnar og loftræstistokkar féllu niður í kjallaranum.
„Það var mjög mikill vindur í gær og sérstaklega á milli þrjú og sex. Það kom bara vindhviða inn um kjallaradyrnar og kerfisloftið fellur niður. Þetta eru lausar plötur sem er yfirleitt hægt að lyfta með fingrum sem losnuðu þarna og eitthvað af loftræstikerfinu,“ segir Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, í samtali við Vísi. RÚV greindi fyrst frá málinu.

Hann segir að iðnaðarmenn hafi ekki verið lengi að kippa þessu í laginn og þegar Gylfi mætti til vinnu í morgun var eins og það hafi verið í skorist.
„Svo fuku nokkur önnur þök í bænum í gær og það var ein plata sem var ansi nálægt hjúkrunarheimilinu okkar en björgunarsveit kom og bjargaði því fyrir okkur.“

Komið logn
Óveðrið hafði lítil áhrif á starfsemi sjúkrahússins og komust meira og minna allir starfsmenn til og frá vinnu þrátt fyrir slæma færð og einhverjar vegalokanir.
Fljótt skipast veður í lofti og hefur nú kyrrð færst yfir Vestfirði eftir átök síðustu daga.
„Það er yndislegt veður núna, bjart og smá rigning svo snjórinn er að bráðna,“ sagði Gylfi í samtali við blaðamann síðdegis í dag.
Hann segir það vera til marks um vindstyrkinn í gær að fánastöngin við Ísafjarðarkirkju hafi brotnað í látunum en hún hefur staðið af sér öll óveður á síðustu 20 til 30 árum.