Fótbolti

Áslaug Munda fékk höfuðhögg og er ekki búin að jafna sig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir í leik með Breiðabliki í sumar.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir í leik með Breiðabliki í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir er ekki í landsliðshópnum fyrir leikina á móti Tékklandi og Kýpur og landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson útskýrði fjarveru hennar á blaðamannafundi í dag.

Það vakti athygli að Áslaug Munda spilaði ekki í fyrsta leik íslenska liðsins í undankeppninni en það var skýring á því. Hún flaug til Íslands frá Bandaríkjunum þar sem hún stundar nám við Harvard háskóla en kom ekkert við sögu í leiknum.

Áslaug var einn besti leikmaður Pepsi Max deildar kvenna áður en hún fór út í nám í Boston.

Landsliðsþjálfarinn sagði ástæðu fyrir þessu þótt að það hafi ekki komið fram í kringum leikinn við Hollendinga á sínum tíma.

Áslaug Munda fékk nefnilega höfuðhögg tveimur vikum áður hún kom til móts við íslenska landsliðið og gat á endanum ekki tekið þátt í Hollandsleiknum.

Þorsteinn sagði að það hafi ekki verið neitt leyndarmál en þar sem hann var ekki spurður út í það sérstaklega þá talaði hann ekki um meiðsli hennar í síðasta verkefni.

„Það var allt í lagi í byrjun en svo kom bakslag í þetta hjá henni. Hún gat ekki tekið þátt í leiknum á móti Hollandi,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, á blaðamannafundi í dag.

„Hún er ekki ennþá búin að ná sér og hefur ekki getað æft. Það var því ekki hægt að velja hana núna,“ sagði Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×