Körfubolti

Martin stigahæsti maður vallarins er Valencia tapaði gegn Real Madrid

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Martin Hermannsson var stigahæsti maður vallarins í dag.
Martin Hermannsson var stigahæsti maður vallarins í dag. EPA-EFE/MIGUEL ANGEL POLO

Martin Hermannsson var stigahæsti maður vallarins með 20 stig þegar að Valencia tapaði fyrir Real Madrid í spænsku ACB deildinni í körfubolta í dag, 93-79.

Eftir erfiða byrjun í fyrsta leikhluta þar sem Martin og félagar lentu mest sjö stigum undir, komust þeir á ágætis skrið og fóru unn í annan leikhluta með þriggja stiga forskot, 23-20.

Liðin skiptust á að vera með forystuna í öðrum leikhluta, og þegar flautað var til hálfleiks var staðan 42-39, gestunum í Real Madrid í vil.

Gestinrir héldu forystunni allan þriðja leikhluta, en náðu ekki að hrista Martin og félaga hans í Valencia almennilega af sér. Þegar komið var að lokaleikhlutanum var munurinn ekki nema fjögur stig, 64-60.

Gestinrir í Real Madrid byrjuðu fjórða leikhluta af miklum krafti og náðu fljótt tíu stiga forystu. Þá var skaðinn skeður og Martin og félagar komu aldrei til baka eftir það. Eftir að hafa lent mest 20 stigum undir náðu Martin og félgar að klóra lítillega í bakkann, en lokatölur urðu 93-79.

Eins og áður segir var Martin stigahæsti maður vallarins með 20 stig, en hann gaf einnig sex stoðsendingar og tók tvö fráköst.

Real Madrid hefur nú unnið alla fimm leiki sína á tímabilinu og sitja í öðru sæti á eftir Barcelona sem hefur unnið alla sex leiki sína. Martin og félagar sitja í tíunda sæti deildarinnar með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×