Innlent

Fram­­ganga SA í máli flug­manna setji hættu­­­legt for­­­dæmi

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Bláfugl sagði upp ellefu flugmönnum FÍA fyrr á árinu. Mynd/ Vilhelm.
Bláfugl sagði upp ellefu flugmönnum FÍA fyrr á árinu. Mynd/ Vilhelm.

Félag íslenskra atvinnuflugmanna hefur skorað á Bláfugl og Samtök atvinnulífsins að standa við gildandi kjarasamning og fara eftir dómi sem féll nýverið í málinu í Félagsdómi. Lögmaður FÍA segir að um skýrt lögbrot sé að ræða af hálfu Samtaka atvinnulífsins. 

Málið varðar uppsagnir ellefu flugmanna hjá Bláfugli fyrr á árinu en Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu í síðasta mánuði að uppsagnirnar hafi verið ólögmætar. Í yfirlýsingu Félags íslenskra atvinnuflugmanna segir að það sé óásættanlegt að ekki sé farið eftir dóminum og gildandi kjarasamningum.

Sonja Bjarnadóttir Backman, lögfræðingur FÍA, segir að um sé að ræða hættulega þróun. Það hafi komið skýrt fram í dóminum að kjarasamningar haldi gildi sínum og því eigi félagsmenn FÍA forgang í ellefu stöðugildi hjá Bláfugli.

„Við teljum þetta vera alvarlega atlögu að stjórnarskrárvörðum rétti stéttarfélaga og ef að eftirlitsaðilar grípa ekki inn í málið, að þetta félag og samtökin virði ekki gildandi lög kjarasamninga og fallna dóma, þá er verið að skapa hérna mjög hættulegt fordæmi fyrir íslenskan vinnumarkað í heild,“ segir Sonja.

„Við höfum nú þegar séð anga af því að önnur fyrirtæki eru að fylgjast með þessu máli til að athuga hvort þau geti stigið þessi sömu skref og þetta þarf bara að stoppa,“ segir Sonja en hún bendir á að skömmu fyrir uppsagnirnar hafi þar verið ráðnir inn erlendir gerviverktakar á helmingi lægri launum.

Með yfirlýsingu FÍA er einnig verið að kalla eftir viðbrögðum frá yfirvöldum og þau beðin um að láta sig málið varða.

„Það eru eftirlitsaðilar með vinnumarkaðinum, eins og Vinnumálastofnun, sem að hefur heimildir til að grípa inn í á mörgum stöðum. Þarna er til að mynda íslenskt félag að ráða inn gerviverktaka frá erlendri starfsmannaleigu. Að okkar mati hefur eftirlit með þessu ekki verið með fullnægjandi hætti,“ segir Sonja.

„FÍA er auðvitað líka með þessari yfirlýsingu að kalla eftir samstöðu stéttarfélaga landsins, því að í okkar augum er þetta ekkert nema en aðför að íslenskum vinnumarkaði og stéttarfélögum og kjarasamningum,“ segir Sonja.


Tengdar fréttir

Mikil­vægur sigur FÍA gegn Blá­fugli og SA

Mikilvægur sigur vannst í baráttu Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) gegn gerviverktöku flugmanna þegar Félagsdómur kvað upp dóm í máli FÍA gegn Samtökum atvinnulífsins og Bláfugli þann 16. september sl.

Uppsagnir flugmanna Bláfugls dæmdar ólögmætar

Félagsdómur staðfesti í dag ólögmæti uppsagna Bláfugls á flugmönnum sem eru meðlimir í Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA). FÍA fagnar niðurstöðunni en félagið höfðaði mál á hendur Samtökum atvinnulífsins sem Bláfugl heyrir undir.

Verk­falls­að­gerðir FÍA lög­mætar að mati Lands­réttar

Landsréttur hefur staðfest að verkfallsaðgerðir, sem Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) réðst í gegn Bláfugli ehf., hafi verið lögmætar. Bláfugl óskaði eftir lögbanni á verkfallsaðgerðir FÍA í febrúar síðastliðnum en sýslumaður hafnaði kröfu Bláfugls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×