„Það er í lagi að segja ekki alltaf allt gott,“ segir Hlynur Jónasson stjórnendaráðgjafi og stjórnarmaður Geðhjálpar. Hlynur hvetur vinnustaði til að opna samtalið um líðan og heilsu starfsfólks og stjórnenda enda segir hann flesta sýna þeim málum skilning og virðingu. „Við göngum í gegnum mismunandi tímabil í lífinu sem er mannlegt og það er hægara sagt en gert að skilja við vanlíðan við dyrnar heima hjá okkur og láta eins og ekkert sé þegar á vinnustaðinn er komið.“
Í Atvinnulífinu í dag og á morgun er fjallað um það hvers vegna það er svo mikilvægt að ræða andlega líðan starfsfólks á vinnustöðum.
Ávinningur fyrir alla að starfsfólki líði vel
Umræða um geðheilbrigði og andlega líðan fólks er að opnast nokkuð hratt og má meðal annars nefna að á Mannauðsdeginum sem haldinn var í byrjun mánaðarins, voru þessi mál nokkuð ofarlega á baugi. Hlynur var einn þeirra sem þar hélt erindi undir yfirskriftinni „Sæl. Ég segi ekki alltaf allt gott.“
En hvers vegna að opna þetta samtal á vinnustöðum?
„Opið samtal eykur líkur á að starfsfólk segi fyrr frá sinni vanlíðan eða sínum vanda. Þá aukast líkur á að hægt sé að koma í veg fyrir frekari veikindi starfsmanns og lengri fjarveru,“ segir Hlynur.
Þá segir Hlynur að þegar búið er að opna fyrir þetta samtal á vinnustað, aukast líkurnar á því að starfsfólki langi til að segja frá því hvernig því er að líða.
„Þegar það finnur að það er skilningur fyrir hendi og traust eru meiri líkur að finna farsæla lausn á vandanum því inngripið hefst mun fyrr,“ segir Hlynur og bætir við:
Þegar yfirmenn hafa næmt auga fyrir breytingum í fari sinna starfsmanna þá eru meiri líkur á að þeir kunni að bregðast við með samtali um hvernig viðkomandi hafi það.“

Ekki sjálfgefið að kunna þetta samtal
Hlynur tekur undir þær raddir sem bent hafa á hversu mikilvægt það er að hlúa að andlegri líðan fólks í kjölfar heimsfaraldurs.
Að hans mati hefur mikilvægi þess að eiga opið og hreinskilið samtal um líðan okkar og almennt um geðheilbrigði, sjaldan verið jafn áríðandi og einmitt nú.
„Heimsfaraldurinn hefur haft áhrif á geð okkar allra með einum eða öðrum hætti. Ég held að því meiri skilning sem maður hefur á sínu nærumhverfi, virðingu fyrir fjölbreytileika, og að okkur geti liðið bæði vel og ekki vel, opni tækifæri til að skapabetra andrúmsloft á vinnustaðnum.“
Hlynur segir hins vegar ekki sjálfgefið að stjórnendur eða starfsfólk kunni að taka þetta samtal eða fyrir vinnustaði að taka það upp að opna samtalið.
Sem dæmi er þetta krafa á stjórnendur sem almennt þekktist ekki eitt sinn.
„Það er mikilvægt að þjálfa stjórnendur í því að eiga þetta samtal og það er ekki sjálfgefið að geta eða kunna það,“ segir Hlynur.
Þá bendir hann á að þegar talað er um andlega líðan starfsfólks, séu stjórnendur þar með taldir.
Það má heldur ekki gleymast að stjórnendur eru líka manneskjur. Þeir hafa mögulega þurft að framkvæma sársaukafullar aðgerðir í mikilli óvissu og því fylgir álag,“
segir Hlynur og bætir við:
„Það er því mikilvægt að hlúa að þeim eins og öðrum. Það er ekki síður gert með þjálfun í að taka þessi samtöl og að lesa í aðstæður í vinnuumhverfinu sem hægt er að bregðast við í tíma.“