Fótbolti

Conte klár ef kallið kemur frá Manchester

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Antonio Conte á hliðarlínunni hjá Inter á síðustu leiktíð.
Antonio Conte á hliðarlínunni hjá Inter á síðustu leiktíð. Jonathan Moscrop/Getty Images

Ítalinn Antonio Conte er tilbúinn að taka við þjálfarastöðu Manchester United ef enska knattspyrnufélagið ákveður að láta Ole Gunnar Solskjær fara.

Manchester United beið afhroð er Liverpool mætti á Anfield í stórleik helgarinnar í enska boltanum. Liverpool vann 5-0 sigur og virðist sem Solskjær sé kominn á endastöð með lið sem átti að berjast um titla í vetur.

Spilamennska Man Utd í vetur hefur ekki verið burðug og margir leikir unnist á gæðum einstaklinga einum saman. Þegar kemur að spilamennsku liðsins – ekki einstaklinga – þá er ekki mikið að frétta.

Mikið hefur verið rætt og ritað eftir göngutúr Liverpool í Old Trafford-garðinum og hefur hinn 52 ára gamli Conte hent nafni sínu inn í umræðuna um mögulega þjálfara sem gætu tekið við af Solskjær.

Samkvæmt heimildum The Guardian hafa leikmenn enska félagsins að vissu leyti gefist upp á Norðmanninum og telja hann vera kominn á endastöð.

Conte stýrði Inter Milan til sigurs í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni, á síðustu leiktíð en sagði svo af sér um vorið er ljóst var að félagið þyrfti að selja flesta af sínum bestu mönnum vegna fjárhagsstöðu þess.

Þá hefur hann einnig unnið titla með Juventus og Chelsea ásamt því að þjálfa ítalska landsliðið frá 2014 til 2016.


Tengdar fréttir

Neville heldur að Solskjær verði ekki rekinn

Pressan á Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóra Manchester United, eftir tapið stóra fyrir Liverpool verður óbærileg segir Gary Neville. Þrátt fyrir það telur hann að Solskjær verði áfram við stjórnvölinn hjá United.

Solskjær: Minn versti dagur

Manchester United hefur sjaldan séð verri daga en í dag eftir að liðið beið lægri hlut fyrir erkifjendum sínum í Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×