Þetta segir Bragi Magnússon, formaður körfuknattleiksdeildar Hauka, sem hvetur körfuboltaáhugafólk til að mæta á Ásvelli í kvöld.
Haukar mæta þar tékkneska liðinu Brno klukkan 19.30 eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í keppninni, gegn frönsku liðunum Tarbes og Villeneuve d‘Ascq.
Það er ekki á hverjum degi sem íslensk lið leika í Evrópukeppni í körfubolta en Haukar eru nú með eftir 15 ára hlé og hafa skapað skemmtilega stemningu á heimaleikjum sínum, þar sem klappstýrur hafa meðal annars sýnt listir sínar.

En betur má ef duga skal í kvöld segir Bragi:
„Stemningin hefur verið frábær en við erum að smala núna. Við komumst að því að liðið sem er að heimsækja okkur núna er með 28 manns í fararteymi sínu og þar af er lúðrasveit. Þau eru sem sagt að mæta með lúðrasveit á pallana og við erum ekki að fara að lúffa fyrir þeim.
Ég vil helst kalla á alla körfuboltaaðdáendur á landinu til að mæta hingað í Ólafssal því við erum ekki að fara að láta eitthvað erlent lið koma til Íslands og pakka okkur saman á pöllunum. Það kemur ekki til greina.“

Eins og fram hefur komið frumsýna Haukar nýjan leikmann í kvöld en það er framherjinn Briana Gray. Í innslaginu hér að ofan ræðir Svava Kristín Gretarsdóttir við þjálfarann Bjarna Magnússon um Gray og við Braga um stemninguna á leiknum í kvöld.
Leikur Hauka og Brno hefst klukkan 19:30 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 4.