The Guardian hefur eftir Zabihullah Mujahid, talsmanni Talibana, að tveir árásarmannanna hafi verið handteknir og að þeir tengist Talibönum ekki á nokkurn hátt.
„Handsömuðu árásarmennirnir, sem hafa í nafni Íslamska furstadæmisins leyst persónulegar deilur, verða dæmdir eftir sjaríalögum,“ segir Mujahid.
Talsmaður héraðsstjóra Nangahar héraðs, þar sem árásin var gerð, hefur staðfest ódæðisverkið en hefur ekki veitt nánari upplýsingar. Fjölskyldumeðlimur fórnarlambanna segir árásina hafa verið gerða meðan tónlist var flutt.
„Ungu mennirnir voru að spila tónlist í öðru herbergi og þrír vígamenn Talibana komu og hófu skothríð. Áverkar hinna tveggja særðu eru alvarlegir,“ segir sjónarvotturinn.
Talibanar hafa áður bannað tónlist
Í fyrri valdatíð Talibana í Afganistan fyrir rúmum tveimur áratugum var tónlist með öllu bönnuð. Núverandi stjórn Talibana hefur ekki bannað tónlist þó ráðamenn þar telji hana brot á reglum íslam.
„Innan Íslamska furstadæmisins hefur enginn rétt til að banna neinum að flytja tónlist, einungis til að reyna að sannfæra fólk um að sleppa því. Það er eina leiðin,“ sagði Mujahid á blaðamannafundi.
Ef nokkur drepur einhvern af sjálfsdáðum, jafnvel liðsmenn okkar, er það glæpur og við munum draga hann fyrir dómstóla,“ bætti hann við.