Heilbrigðisstéttir á Landspítalanum hafa lýst áhyggjum af því sem þeir telja neyðarástand á bráðamóttöku spítalans undanfarin misseri. Hópur sjúkraliða sem starfar á bráðamóttökunni birti opið ákall til stjórnvalda í gær þar sem hann lýsti starfsumhverfi sem hann sagði að enginn starfsmaður ætti að þurfa að starfa við. Öryggi sjúklinga og velferð væri stefnt í hættu.
Í ályktun frá stjórn Sjúkraliðafélags Íslands þar sem hún skorar á stjórnarflokkannna að taka á málinu í dag segir að sjúkraliðar, læknar, hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk sé sammála um að ástandið á bráðamóttökunni sé óboðlegt.
Almenningur á Íslandi vilji að gripið verði til aðgerða vegna bráðamóttökunnar og allir stjórnmálaflokkar landsins hafi talað fyrir þeim.
„Þegar sjúklingar fá ekki þá faglegu þjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum er rík ástæða til að bregðast við, annars verður sjúklingum áfram stefnt í hættu á bráðamóttöku Landspítalans því þar ríkir neyðarástand. Nú er nóg komið!“ segir í ályktun félagsins.