Hvorki Xi Jinping, forseti Kína, né Vladímír Pútín, forseti Rússlands, ætla að vera viðstaddir ráðstefnuna en ríki þeirra senda þó sendinefndir til Skotlands. Kínverjar eru umsvifamestu losendur gróðurhúsalofttegunda í heiminum en Rússar eru í fimmta sæti.
„Sú staðreynd að Kína er að reyna að taka sér nýtt hlutverk í heiminum sem leiðtogi, skiljanlega..að mæta ekki á staðinn, látið ekki svona,“ sagði Biden þegar hann var spurður út í hlut ríkja eins og Kína, Rússlands og Sádi-Arabíu í viðræðum til þessa.
Sömu sögu væri að segja um Pútín. Hann þegði þunnu hljóði á meðan óbyggðir Rússlands brynnu. Talsmaður Pútín gafa engar sérstakar skýringar á því hvers vegna Pútín yrði ekki viðstaddur fundinn þegar hann tilkynnti það í síðasta mánuði, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Talið er að Xi Kínaforseti hafi ekki yfirgefið Kína frá því snemma árs 2020, áður en kórónuveiran fór á flug um allan heim en hún átti upptök sín í Wuhan í Kína.
Bæði Kína og Rússland hafa sagst ætla að stefna að kolefnishlutleysi fyrir árið 2060. Það er áratug seinna en mörg vestræn ríki hafa einsett sér að gera og þau vilja að verði sameiginlegt markmið heimsbyggðarinnar.