Heimakonur voru alltaf skrefi framar og bættu hægt og rólega við forystu sína allt frá upphafi til enda. Níu stigum munaði á liðunum að loknum fyrsta leikhluta, sá munur var kominn upp í 16 stig í hálfleik, staðan þá 46-30.
Grindavík vann þriðja leikhluta með þremur stigum og þann fjórða með átta stigum. Munurinn því orðinn 27 stig er flautað var til leiksloka, lokatölur 88-61.
Hulda Björk Ólafsdóttir var stigahæst í liði Grindavíkur með 20 stig ásamt því að taka átta fráköst. Þar á eftir kom Robbi Ryan en hún skoraði 16 stig, gaf sjö stoðsendingar og tók átta fráköst. Embla Kristínardóttir var stigahæst í liði Skallagríms með 20 stig.
Grindavík hefur nú unnið tvo leiki á leiktíðinni á meðan Skallagrímur hefur ekki enn unnið leik.