Frozan Safi var 29 ára gömul og hagfræðimenntuð og er að sögn The Guardian talin fyrsta konan sem myrt er fyrir réttindabaráttu sína síðan Talibanar komust aftur til valda í landinu síðsumars.
Hún hvarf fyrir um tveimur vikum, en ættingjar hennar báru kennsl á hana eftir að Talibanar komu með lík hennar og annarrar óþekktrar konu á sjúkrahús. Talsmaður Talibana í héraðinu sagði að þær hefðu fundist ásamt líkum tveggja karlmanna. Leiddi talsmaðurinn líkum að því að þarna hefði komið upp „persónulegur ágreiningur“, en sagði að lögregla væri með málið til rannsóknar.
Terrible news from Mazar-e-Sharif: dead bodies of four women’s rights activists were found in the city.
— Zahra Rahimi (@ZahraSRahimi) November 5, 2021
Frozan Safi (in the picture) is one of them. Frozan’s relatives say she along with three others have been disappeared days before. pic.twitter.com/25knYghuNw
Systir Frozan, sem er læknir, sagði að hun hafi verið óþekkjanleg vegna skotsára á höfði, bók og fótleggjum, auk þess sem trúlofunarhringur hennar hafi verið horfinn, en fjölskyldan þekkti hana af fötunum sem hún klæddist.
Frozan hafði fyrir nokkru fengið nafnlausa ábendingu um að hún þyrfti að safna saman sönnunum um starf sitt í þágu mannréttinda og halda á öruggan stað. Hún taldi sjálf að þýsk yfirvöld væru að meta umsókn hennar um hæli í landinu og hélt af stað.
Fjölskylda Frozan vildi ekki gefa mikið út um hver gæti borið ábyrgð á morðinu, enda gæti það haft afleiðingar í för með sér.
Eins og kom fram í viðtali Vísis við blaðakonu í Kabúl í síðustu viku, ríkir gríðarlegur ótti innan raða mannréttindafrömuða og fjölmiðlafólks í landinu, vegna ógnarstjórnar Talibana. Fara sögur af því að stjórnarherrarnir leiti logandi ljósi að öllu andófsfólki.
Vart líður sá dagur að ekki sé enn þrengt að réttindum kvenna og stúlkna í landinu, en eins og er fá stúlkur ekki að ganga í gagnfræðaskóla, allir ráðherrar í ríkisstjórninni eru karlar og fæstar konur fá að mæta í vinnu eða stunda íþróttir.
Á fimmtudag upplýsti Human Rights Watch að reglur Talibana kæmu í veg fyrir að konur gætu sinnt hjálpar- og þróunarstörfum í landinu, sem hraðaði enn yfirvofandi neyðarástandi í landinu.